Ólafur E. Jóhannsson
Það að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi hafnað kröfu fernra umhverfisverndarsamtaka um að felld verði úr gildi sú ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, þýðir að framkvæmdir við lagningu línunnar hefjast síðsumars.
Segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, það mikinn létti að úrskurðurinn hafi fallið á þann veg sem varð.
„Undirbúningur að framkvæmdum fer á fullt fljótlega, við erum að undirbúa útboð á línunni. Það er gríðarlega mikilvægt miðað við ástandið á Reykjanesskaganum að reisa þessa línu svo fljótt sem mögulegt er,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við Morgunblaðið.
Samningar hafa náðst við flesta landeigendur en ósamið er við þrjá. Eignarnám einnar jarðar er í undirbúningi, ásamt eignarnámi tveggja jarðarhluta.
Hraða á framkvæmdum sem kostur er en þó er nokkur óvissa um aðdrætti aðfanga, þar sem mikil eftirspurn er eftir nauðsynlegum búnaði.
Þá er verið að huga að útfærslu línunnar þannig að hægt verði að verja hana fyrir hraunstraumi, komi upp eldgos sem stefnt geti henni í hættu. Það er í skoðun hjá Landsneti í samvinnu við almannavarnir.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.