Sóttvarnalækni barst tilkynning í dag frá Landspítala vegna mislinga sem greindust hjá fullorðnum einstakling sem kom frá útlöndum miðvikudaginn 31. janúar.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef embættis landlæknis.
Þar segir að einstaklingurinn hafi fengið útbrot þann 1. febrúar og leitað til heilbrigðisþjónustu 2. febrúar. Einstaklingurinn er nú í einangrun á sjúkrahúsi.
Nú þegar hefur verið haft samband við þau flugfélög sem fluttu viðkomandi þann 31. janúar og farþegar upplýstir um smithættu. Hún er mest áður en útbrot koma fram en eftir það dvínar smithættan og gengur yfir á nokkrum dögum.
Í tilkynningunni segir að mislingar séu bráðsmitandi skæður veirusjúkdómur sem smitar frá öndunarvegi. Einkenni geta komið fram hjá smituðum 1–3 vikum eftir smit.
Þau sem hafa verið bólusett fyrir mislingum eða fengið mislinga áður smitast mjög ólíklega en ef það gerist eru einkenni oftast væg. Óbólusettir eru hins vegar í áhættu fyrir smiti og veikindum.
„Ef haft hefur verið samband við þig vegna hugsanlegrar útsetningar og þú færð einkenni (hita, kvefeinkenni, augnroða og/eða útbrot á húð), sérstaklega ef þú hefur ekki verið bólusett(ur) við mislingum, eða ekki fengið mislinga, hvetjum við þig eindregið til að hafa samband við lækni/heilsugæslu símleiðis eða gegnum netspjall Heilsuveru. Vinsamlegast mætið ekki á heilsugæslu eða sjúklingamóttöku án þess að hafa fyrst samband,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að ef einstaklingar telja sig vera óbólusetta og vilja láta bólusetja sig við mislingum, er fólk beðið um að hafa samband við lækni/heilsugæslu símleiðis eða gegnum netspjall Heilsuveru.