Agnar Már Másson
Enn hefur ekkert mislingasmit greinst hér á landi til viðbótar því sem greindist á Landspítalanum í síðustu viku.
Þetta segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is en ferðamaður greindist með mislinga á Landspítalanum síðasta laugardag.
Mislingasmitið er hið fyrsta sem greinist hérlendis frá árinu 2019.
„Einkenni smits koma yfirleitt viku til tólf dögum eftir smit,“ segir Guðrún en sjúklingurinn flaug til landsins þann 1. febrúar. Því séu enn góðar líkur á því að fleiri greinist með mislinga.
Sóttvarnarlæknir hvetur þau sem voru í nánu samneyti við fólk sem var útsett fyrir mislingasmitið og ekki eru bólusett og hafa ekki fengið mislinga til að þiggja bólusetningu við mislingum sem fyrst. Þetta á aðeins við þá sem eru fæddir 1970 eða síðar.
Heimilisfólk þeirra sem telja sig hafa verið útsetta getur fengið ráðgjöf um hvort bólusetningar er þörf í gegnum netspjall Heilsuveru eða í síma 1700. Þar fást jafnframt upplýsingar um hvar og hvenær er bólusett á höfuðborgarsvæðinu.
Íbúar landsbyggðarinnar geta haft samband við sína heilsugæslu til að fá upplýsingar um bólusetningar.