Lögreglan í Dyflinni á Írlandi telur nú að Jón Þröstur Jónsson hafi verið myrtur og lík hans verið skilið eftir í almenningsgarði í borginni.
Frá þessu hafa heimildarmenn innan lögreglunnar greint írska miðlinum Dublin Live.
Telur lögreglan að Jón Þröstur hafi verið myrtur þegar sama dag og hann hvarf, 9. febrúar 2019, í kjölfar fundar hans við einhvern sem hann hugðist fá peninga hjá en að sögn heimildarmannanna hafði Jón Þröstur tapað þúsundum evra í pókerspili í Dyflinni áður en hann hvarf.
Telur lögregla að til átaka hafi komið á fundinum og Jón Þröstur látið lífið í þeim. Líki hans hafi svo verið komið fyrir í almenningsgarðinum, í Santry í norðurhluta borgarinnar, daginn sem hann síðast sást á lífi.
Nafnlausu ábendingarnar sem lögreglunni bárust nýlega eiga að hafa greint frá þessari atburðarás. „Þar komu nægar upplýsingar fram til að ákveðið var að framkvæma leit,“ hefur Dublin Live eftir heimildarmanni. Var önnur ábendingin send til lögreglustöðvar í Ballymun en hin afhent presti í írsku höfuðborginni.
Þrátt fyrir að takmarkaðar upplýsingar kæmu fram voru þær nægar til að lögregla taldi ástæðu til að ætla að hugsanlegt væri að jarðneskar leifar Jóns Þrastar væri að finna í garðinum.
Hófst leitin þar í dag eins og mbl.is greindi frá og reiknað er með að henni verði fram haldið á morgun.