Leitin að Jóni Þresti Jónssyni hefur haldið áfram í almenningsgarðinum Santry Demense í Dublin í dag.
Lögreglan í írsku borginni telur að hann hafi verið myrtur og lík hans skilið eftir í garðinum.
Að sögn blaðamanns The Journal er garðurinn stór og á enn eftir að leita á ýmsum stöðum, en leitin hófst í gærmorgun.
„Þetta er frekar stór garður þannig að það þarf líkast til tvo daga í leitina,” sagði Muiris O´Cearbhaill við Newstalk Breakfast.
„Gardaí [lögreglan] segir ekkert nýtt að frétta varðandi leitina á þessari stundu en eitthvað gæti komið í ljós síðar.”
Hann bætti því við að hundar og kafarar hefðu tekið þátt í leitinni.
Systkini Jóns Þrastar, Anna Hildur og Davíð Karl, ferðuðust til Dublin í síðustu viku til að taka þátt í leitinni að bróður sínum.