Kvika kann að vera á hreyfingu undir Fagradalsfjalli

„Það kann að vera að kerfið sé að jafna sig en það getur líka verið önnur skýring að þarna sé ákveðin áraun af kviku að reyna að leita til yfirborðs.“

Þetta segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, spurður hvað kunni að skýra smáskjálftavirkni við Fagradalsfjall.

Freysteinn, sem er gestur í Dagmálum í dag, segir vísindamönnum tamt að líta til fyrri atburða þegar reynt er að spá fyrir um hvað gerist næst.

„Reyndar teljum við flest að það endurtaki sig aftur, eldgos í Sundhnúkagígaröðinni. En einhvern tímann breytist þetta. Einn möguleiki til breytinga er að kvikan finni sér farveg annars staðar. Það er ekki óhugsandi að hún geti leitað aftur í Fagradalsfjall. Það þarf ekki að leita langt aftur,“ segir Freysteinn og vísar þar til atburðarásarinnar sem hófst í október á síðasta ári.

Þá var virknin mest við Fagradalsfjall en færðist hún svo skyndilega yfir í Svartsengiskerfið. Þrýstingur hefur á sama tíma ekki minnkað við Fagradalsfjall og land ekki sigið þar þrátt fyrir þrjú eldgos á tveimur mánuðum.

Smáskjálftavirkni hefur verið við Fagradalsfjall undanfarnar vikur.
Smáskjálftavirkni hefur verið við Fagradalsfjall undanfarnar vikur. mbl.is/Eyþór

Vísbendingar um að kerfin séu samtengd

„Við teljum að það þyrfti einhvern aðdraganda. Sérstaklega af því að skjálftarnir sem hafa orðið undanfarið eru ekki yfir kvikuganginum heldur aðeins vestar. Við höldum að þegar kvikan finnur sér nýja rás til yfirborðs, alveg síðustu fimm kílómetrana, þá munum við sjá augljós merki í jarðskjálftum,“ segir Freysteinn.

Hann segir ákveðnar vísbendingar vera um að þessi kerfi séu samtengd og að þannig geti eldgos í Fagradalsfjalli létt á þrýstingi neðanjarðar á þessu svæði.

„Reykjanesskaginn er nú ekki stór í þessu stærra samhengi miðað við plánetuna okkar. Hvað er eitt eldfjall og hvað eru mörg eldfjöll? Er Ísland eitt eldfjall? Það er spurning. Það eru vísbendingar um meiri samtengingar á milli kerfa,“ segir Freysteinn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert