Rannsókn lögreglunnar í Dyflinni að Jóni Þresti heldur áfram en leit í almenningsgarði í Norður-Dyflinni í vikunni hefur ekki gefið frekari upplýsingar um hvarfið á honum. Þetta staðfestir lögreglan við mbl.is í dag. Nafnlaus bréf sem bárust lögreglu í síðustu viku hafa breytt rannsókninni.
Eins og áður hefur komið fram bárust rannsóknaraðilum tvö nafnlaus bréf sem leiddu til þess að leitað var í Santry Demense almenningsgarðinum. Hundar og kafarar tóku þátt í leitinni sem hefur hingað til engan árangur borið.
Nafnlausu bréfin eru sögð móta það hvernig lögreglan lítur á þetta mál. Þetta kemur fram í írska miðlinum Newstalk.
Lögreglan kallar áfram eftir því að höfundur/ar bréfanna stígi fram. Þá hefur lögreglan lofað algjörum trúnaði í samskiptum við þá sem hafa samband.
Lögreglan óskar einnig eftir því að þeir sem hafi einhverjar upplýsingar um hvarf Jóns Þrastar eða geta aðstoðað við að finna hann hafi samband.
Síðast sást til Jóns Þrastar 9. febrúar 2019 um ellefuleyti að morgni í Dyflinni, er hann gekk í átt að almenningsgarðinum. Ekkert hefur sést til hans síðan, eða í fimm ár.
Á þessum fimm árum hefur rannsókn lögreglu á svæðinu verið víðtæk. 270 starfsmenn hafa starfað við leitina, fjölmargar yfirheyrslur framkvæmdar og margar klukkustundir af efni úr öryggismyndavélum verið til skoðunar segir lögreglan við mbl.is.
Rannsókn stendur enn yfir. Lögreglan gat ekki gefið upp meiri upplýsingar að svo stöddu.