Surtseyjarmálinu lokið með sekt

Surtsey. Náttúran á eyjunni er að miklu leyti ósnortin enda …
Surtsey. Náttúran á eyjunni er að miklu leyti ósnortin enda hún friðlýst og auk þess á heimsminjaskrá UNESCO. Ljósmynd/Erling Ólafsson

Maður, sem kærður var til lögreglu fyrir að fara til Surtseyjar á kajak í ágúst í fyrra, hefur fallist á að ljúka málinu með sektargerð. Þetta staðfestir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, við mbl.is. „Við bjóðum honum að ljúka málinu með sektargerð sem hann fellst á og málinu er lokið,“ segir lögreglustjóri.

Maðurinn sem um ræðir, Ágúst Halldórsson, lýsti því yfir á samfélagsmiðlinum TikTok á sínum tíma að hann hefði orðið fyrstur manna í heiminum til að róa á kajak til Surtseyjar en eyjan er friðlýst lögum samkvæmt, og óheimilt að heimsækja hana nema sérstakt leyfi til slíks liggi fyrir, auk þess sem hún hefur átt sæti á heimsminjaskrá UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, frá sumrinu 2008.

Lenti í sjávarháska

Ræddi Ágúst við K100 skömmu eftir heimsókn sína og greindi þá frá því að í raun hefði hann farið til Surtseyjar fyrir slysni. „Ég ætlaði reyndar ekki að gera það, ég lenti bara í smá sjávarháska,“ sagði hann í spjallinu. Hann hefði ætlað sér á Geirfuglasker en lent í straumi og metið aðstæður svo að of hættulegt hefði verið að halda áfram för til upphaflegs áfangastaðar. 

Næsta þurrlendi hafi verið Surtsey og hafi hann því látið skeika að sköpuðu.

Barst lögreglu í Eyjum formleg kæra frá Umhverfisstofnun vegna málsins og hófst rekstur þess þar með því að Ágúst var boðaður til yfirheyrslu.

Sagði Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri stofnunarinnar, í samtali við mbl.is í ágúst að ekki væri í boði að fara í heimildarleysi til Surtseyjar. „Þetta er ekki í boði. Við vitum af þessu og erum að bregðast við því,“ sagði forstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka