Stutt í að hraun nái varnargörðum við orkuverið

Ari Trausti segir lítið hafa dregið úr hraunflæðinu.
Ari Trausti segir lítið hafa dregið úr hraunflæðinu. mbl.is/Hörður Kristleifsson

„Grindavíkurvegurinn er farinn í sundur á aðeins breiðara svæði en síðast. Aðalhraunálman þar rennur alveg eins og þessi fyrri sem læddist meðfram varnargörðunum, þannig að það er stutt í að hraunið nái görðunum aftur sem verja orkuverið í Svartsengi.“

Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur, sem hefur nýlokið um klukkustundar löngu þyrluflugi með Landhelgisgæslunni. 

„Ef þetta rennur meðfram garðinum ofan á fyrra hraun er auðveldara fyrir hraunið að komast yfir garðinn.“

Ari Trausti Guðmundsson ásamt fleirum fyrir flug Gæslunnar í nótt.
Ari Trausti Guðmundsson ásamt fleirum fyrir flug Gæslunnar í nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Lítið dregið úr hraunflæði

Ari Trausti segir lítið hafa dregið úr hraunflæðinu.

„Það hafa slitnað í sundur nokkrir staðir og aðeins dregið úr því til endanna. Þetta er mjög kröftugt gos ennþá og hraunrennslið í samræmi við það, meira heldur en nokkru sinni fyrr í rúmmetrum á sekúndu.

Hraunálman sem rennur í suður er farin að renna þar með garðinum. Það sameinuðust tveir álar þar, sem bæta svolítið í hraunrennslið meðfram þeim garði. Það stefnir í átt til sjávar og þá er býlið Hraun í ákveðinni hættu. Þetta lítur ekkert vel út en þá er spurning hversu hratt dregur úr þessu,“ segir Ari.

„Ef þetta verða einhverjir fáir dagar getur þetta sloppið til. Ef þetta gos lengist eitthvað miðað við hin þá geta orðið einhvers konar vandræði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert