Ekkert breyst frá síðustu vantrauststillögu

Bæði Hanna og Björn segja að efnislega hafi ekkert breyst …
Bæði Hanna og Björn segja að efnislega hafi ekkert breyst frá því í janúar. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Kristinn

Efnislega hefur ekkert breyst frá því að síðasta vantrauststillaga var lögð fram á hendur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í janúar. Þetta segja Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is.

Hanna segir ljóst að Viðreisn hefði stutt vantrauststillöguna gegn Svandísi þann 22. janúar hefði hún komið til kasta þingsins. Sú tillaga var afturkölluð vegna veikinda Svandísar. Nú hefur Inga Sæland boðað nýja vantrauststillögu sem verður lögð fram þegar þing kemur saman, þann 8. apríl.

Miðflokkur mun styðja við tillöguna en ekki liggur fyrir hvernig aðrir stjórnarandstöðuflokkar munu kjósa í málinu, ef tillagan verður lögð fram.

Eðlilegt að gefa Svandísi svigrúm

„Svandís er að koma til baka eftir mjög erfið veikindi og mér finnst ástæðulaust að ana að því núna, vikunni áður en boðað vantraust á að vera lagt fram, að taka afstöðu. Það er nægur tími og við munum bara gera það í rólegheitum, ef þessi margboðaða tillaga kemur fram. Auðvitað er eðlilegt að gefa ráðherra, sem er að koma til baka eftir jafn erfið veikindi og Svandís hefur verið að ganga í gegnum, smá svigrúm þó alvarleiki málsins hverfi ekki,“ segir Hanna.

Hún segir að efnislega hafi ekkert breyst frá því í janúar en eðlilegt sé að Viðreisn gefi sér tíma til að taka afstöðu til tillögunnar. 

„Efnisatriði málsins [hafa] kannski ekki breyst en það er full ástæða til að sýna skilning á því að ráðherra er að koma til baka eftir lífshættuleg veikindi og við viljum taka þann tíma sem við höfum til að taka afstöðu til málsins. Og við höfum nægan tíma, tillagan er ekki komin fram,“ segir Hanna aðspurð. 

Munu ræða málið fram að atkvæðagreiðslu

Björn Leví segir einnig að ekkert hafa breyst frá því í janúar.

„Það hefur ekkert breyst frá því síðast. Það var pása, þeir ætluðu að leggja þetta fram síðast – svo komu upp veikindin og allt sett í pásu. Víst hún er heilbrigð til að koma aftur til starfa þá getur hún svarað fyrir,“ segir Björn.

Hann ítrekar að Píratar séu sammála hvalveiðibanni en segir skipta máli að það sé gert rétt. Hann segir að Píratar muni ræða þetta mál áfram sín á milli.

„[Við] Verðum að því fram yfir umræðuna í þessu máli og þangað til atkvæðagreiðslan kemur,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert