Miðflokkur mun styðja boðaða vantrauststillögu

Miðflokkurinn mun styðja vantrauststillögu Flokks fólksins.
Miðflokkurinn mun styðja vantrauststillögu Flokks fólksins. mbl.is/Hákon Pálsson

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir það blasa við að Miðflokkurinn muni styðja við boðaða vantrauststillögu Flokks fólksins á hendur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.

Svandís tilkynnti fyrr í dag að hún myndi koma til baka úr veikindaleyfi á morgun.

Inga Sæ­land, formaður Flokks Fólks­ins, staðfesti í samtali við mbl.is að hún hygðist leggja fram vantrauststillöguna þegar þing kæmi saman í næstu viku, þann 8. apríl.

Ekkert breyst varðandi störf ráðherrans

„Það hefur ekkert breyst hvað embættisfærslur ráðherrans varðar. Auðvitað er ánægjulegt að vel hafi gengið með meðferð hennar og að hún sé að koma til baka, en hvað málefni ráðuneytisins varðar þá hefur ekkert breyst á þessum tíma.

Nú hefur Inga Sæland lýst því yfir að hún muni leggja fram vantrauststillögu á fyrsta degi eftir að þing kemur saman eftir páskahlé og þá finnst mér blasa við að við munum styðja við þá tillögu þegar hún kemur fram,“ segir Bergþór í samtali við mbl.is.

22. janúar lagði Inga fram samskonar vantrauststillögu en dró hana til baka eftir að Svandís tilkynnti skömmu seinna sama dag að hún hefði greinst með krabbamein og væri farin í veikindaleyfi að læknisráði. Var tillagan þá lögð fram vegna álits umboðsmanns Alþing­is, sem seg­ir að Svandís hafi með ólög­mæt­um hætti sett á tíma­bundið hval­veiðibann í sum­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert