Margar vísbendingar: Skoða upptökur úr Leifsstöð

Þjófanna, sem stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í …
Þjófanna, sem stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg, er enn leitað. mbl.is/Árni Sæberg

Leit lögreglunnar að mönnunum tveimur, sem stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg fyrir hálfum mánuði, hefur enn engan árangur borið.

Sömu sögu er að segja af Toyota Yaris-bifreiðinni sem þjófarnir voru á þegar þeir óku á brott úr Hamraborg. Hún er enn ófundin. Bifreiðin var með tvær mismunandi númeraplötur en báðum skráningarnúmerunum hafði verið stolið af öðrum ökutækjum.

Enginn handtekinn

„Málið er í fullri rannsókn. Það hefur enginn verið handtekinn og við erum enn að vinna úr þeim vísbendingum sem við höfum fengið,“ segir Þóra Jónasdóttir, stöðvarstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi, í samtali við mbl.is.

Þóra segir að lögreglunni hafi borist þó nokkuð margar vísbendingar og að rannsóknardeildin sé að vinna í málinu en þjófarnir höfðu á brott með sér 20-30 milljónir króna sem voru í tveimur töskum í verðmætaflutningabílnum.

Meðal þess sem lögreglan hefur skoðað eru upptökur úr öryggismyndavélum, meðal annars í Leifsstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert