Yfir 14 ára tímabil, frá árinu 2008 til ársins 2022 var árlegur fjöldi þungunarrofa hér á landi á bilinu 916 til 1.049. Samkvæmt tölum sem birtar eru í talnabrunni embættis landlæknis má sjá að síðustu ár hafa árlega verið um 11 til 12 þungunarrof á hverjar 1.000 á frjósemisaldri. Ekki virðist hafa orðið fjölgun í þungunarrofum þrátt fyrir aukið frelsi kvenna með nýjum lögum um þungunarrof, en þó hefur slíkum tilfellum fjölgað í yngsta aldurshópnum.
Eins og sjá má á meðfylgjandi grafi virðist fjöldinn vera nokkuð stöðugur yfir tímabilið, en hefur þó sveiflast aðeins innan tímabilsins 2020-2022. Þess ber þó að geta að tölur fyrir árin 2008-2018 eru ekki fyllilega samanburðarhæfar við tölur frá 2020-2022. Helgast það af breyttum lögum um þungunarrof og breyttum aðferðum embætti landslæknis við að safna gögnum um fjölda þungunarrofa.
Árið 2021 var lægsti fjöldi skráðra þungunarrofa, eða 916, og hefur hann ekki verið lægri frá árinu 1998. Árið 2022 var fjöldi þungunarrofa 1.037, en það þýðir 12,1 þungunarrof á hverjar 1.000 konur á frjósemisaldri (15-49 ára).
Á tímabilinu 2020 til 2022 hefur hins vegar konum á frjósemisaldri fjölgað um 4% og þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar miðað við fjölda kvenna á frjósemisaldri sést að sveiflan er ekki jafn mikil og þegar um óvigtaðar tölur er að ræða.
Þá er tekið fram í talnabrunninum að samanburðatölur gefi til kynna að tíðni þungunarrofa árið 2022 hafi verið svipuð því sem var áður en lögum um þungunarrof var breytt árið 2019. Á árunum 2020 og 2021 varð nokkur fækkun í fjölda þungunarrofa frá því sem áður hafði verið. Það kann að vera að þær miklu samfélagslegu takmarkanir sem voru í gildi á Íslandi vegna heimsfaraldurs 2020 og 2021 skýri að einhverju leyti umrædda fækkun á þungunarrofum á þessum árum.
Flestar konur sem gangast undir þungunarrof eru á þrítugsaldri, en um helmingur allra framkvæmdra þungunarrofa er hjá konum á aldrinum 20-29 ára. Er það svipað hlutfall og fyrir gildistöku nýju laganna. Hins vegar má sjá aukna tíðni þungunarrofa í yngsta aldurshópnum (yngri en 20 ára) og hjá konum á fertugsaldri.
Var tíðni þungunarrofa hjá konum yngri en 20 ára 9 á hverjar 1.000 konur og hafði hækkað úr 6,8 árið 2020.
Í samantekt landlæknis kemur fram að með nýju löggjöfinni hafi konur nú fullt ákvörðunarvald um að óska eftir þungunarrofi fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja. Í lögunum er tekið fram að þungunarrof skuli ætíð framkvæmt eins fljótt og auðið er, helst fyrir lok 12. viku.
„Þrátt fyrir að löggjöf um þungunarrof hafi verið rýmkuð til muna þá gefa tölur fyrir árin 2020 til 2022 ekki vísbendingar um að fjölgun hafi orðið á þungunarrofum sem framkvæmd eru síðar á meðgöngu. Þvert á móti var mikill meirihluti þeirra kvenna sem undirgekkst þungunarrof genginn skemur en 9 vikur á tímabilinu eða um 86%,“ segir í talnabrunni embættisins.
Til samanburðar var meðalgöngulengd við þungunarrof minna en níu vikur hjá 80% kvenna árin 2017 og 2018.