Mótmæla áformum um stóriðju

„Aðalfundur Veiðifélags Norðurár mótmælir harðlega öllum áformum um stóriðju í …
„Aðalfundur Veiðifélags Norðurár mótmælir harðlega öllum áformum um stóriðju í vindorku á áhrifasvæði árinnar,“ segir í tilkynningunni. Ljósmynd/RT

Veiðifélag Norðurár skorar á sveitarstjórn Borgarbyggðar að leggjast alfarið gegn öllum áformum um vindorkuver í Norðurdal og Þverárhlíð.

Einnig að heimila ekki framkvæmdir við mælimastur á Grjóthálsi þar sem slíkt mastur væri umfangsmikið mannvirki og náttúrulýti, auk þess sem framkvæmdin væri kostnaðarsöm og myndi kalla á áframhaldandi skuldbindingu og aukna kröfu um byggingu vindorkuvers.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá veiðifélaginu.

„Aðalfundur Veiðifélags Norðurár mótmælir harðlega öllum áformum um stóriðju í vindorku á áhrifasvæði árinnar.

Áin er heimsþekkt náttúruperla í miðju friðlýstra náttúruminja. Enda talin ein fegursta laxveiðiá Evrópu sem enn fóstrar hinn einstaka villta lax úr Norður-Atlantshafi allt frá upptökum á Holtavörðuheiði til sjávar,“ segir í tilkynningunni.

Gjörbyltu upplifun gesta

Áin hafi verið í á aðra öld á viðkvæmu og náttúrutengdu ferðaþjónustusvæði. Að breyta umhverfi Norðurár í iðnaðarsvæði undir orkuver og nærliggjandi landsvæðum í áhrifasvæði fyrir stóriðju myndi að mati veiðifélagsins stórskaða náttúrutengda atvinnustarfssemi Norðurár og „gjörbylta þeirri upplifun sem við og gestir okkar njóta við þessa einstöku veiðiperlu.“

Slík stóriðja myndi hafa áhrif á náttúru, lífríki, útsýn, ásýnd og orðspor Norðurár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert