Lögreglan ekki tekið afstöðu til kærunnar

29 nautgripir fundust dauðir. Mynd úr safni.
29 nautgripir fundust dauðir. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Norðurlandi vestra á enn eftir að taka formlega afstöðu til kæru Matvælastofnunnar (MAST) vegna alvarlegrar vanrækslu á nautgripum á sveitabæ í umdæminu.

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, segir kæruna hafa borist í síðustu viku og því sé ekki búið að taka formlega ákvörðun. Yfirgnæfandi líkur séu þó á að málið verði tekið til rannsóknar sem sakamál.

Í kæru til lögreglu gerir stofnunin þá kröfu að umráðamaður verði með dómi sviptur heimild til að hafa búfé í umsjá sinni, versla með það eða sýsla með það með öðrum hætti.

70 dauðir nautgripir

Við eftirlit MAST á dögunum, sem framkvæmt var með aðstoð lögreglu, fundust 29 dauðir nautgripir í fjósi á sveitabæ á Norðurlandi vestra. Um 40 nautgripir voru aflífaðir til viðbótar sökum slæms ástands, þar af 21 á staðnum sem voru hýstir í fjósinu.

Var umhirða þeirra slæm, hreinlæti ábótavant og gripirnir vanfóðraðir.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST, sagði í viðtali við mbl.is á föstudag aðkomuna í gripahúsið hafa verið mjög slæma.

Má ekki halda dýr þar til dómur fellur

Málið er með alvarlegri tilfellum sem ratað hafa á borð MAST og sömuleiðis eitt það versta sem lögreglan á Norðurlandi vestra hefur aðstoðað stofnunina við.

Aðspurður kvaðst Birgir ekki vera með upplýsingar um hvort umráðamaður nautgripanna hafi verið með önnur dýr í sinni umsjón.

Hefur viðkomandi nú verið sviptur heimild til dýrahalds tímabundið, eða þar til dómur fellur í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka