Sterkara þekkingarsamfélag í fjármálaáætlun

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aukinn stuðningur við rannsóknir og þróun er gerður varanlegur í nýrri fjármálaáætlun sem kynnt var í síðustu viku. Þá er boðuð áframhaldandi sókn fyrir háskóla sem og margvísleg uppbygging húsnæðis þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Ein mikilvægasta útflutningsgreinin

Haft er eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að  eitt hennar helsta baráttumál sé að styðja við hugvitið í íslensku samfélagi, sem sé ein mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar og fjórða stoð íslensks efnahagslífs.

Slíkar áherslur eru greinilegar í fjármálaáætlun 2025-2029, að því er segir í tilkynningunni. Efling nýsköpunar í atvinnulífinu sé stór liður í áformum stjórnvalda um stuðning við vaxtargetu hagkerfisins til að örva framleiðniþróun og auka stöðugleika.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjármálaáætlun í síðustu …
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjármálaáætlun í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skattafrádráttur eða útgreiðsla

Eitt helsta verkfæri hins opinbera til þess sé skattfrádráttur eða útgreiðsla á styrk til að efla rannsókna- og þróunarstarf og bæta samkeppnishæfni nýsköpunarfyrirtækja. Frá árinu 2010 hafi slíkur stuðningur við nýsköpun stóraukist. Bæði hafi fleiri nýsköpunarfyrirtæki nýtt sér stuðninginn og stjórnvöld gert umfangsmiklar breytingar á stuðningskerfinu.

Veigamesta breytingin hafi falið í sér hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu sem var lögfest tímabundið árið 2020 í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Í gildandi fjármálaáætlun var gert ráð fyrir að þessar tímabundnu breytingar féllu niður en í nýrri fjármálaáætlun sé hins vegar fallið frá þeim áformum og samfara því verði unnið að bættri framkvæmd og endurskoðun regluverks,“ að því er segir í tilkynningunni.

Skólagjöld verða afnuminn í Háskólanum á Bifröst og Listaháskóla Íslands …
Skólagjöld verða afnuminn í Háskólanum á Bifröst og Listaháskóla Íslands frá og með næsta hausti. mbl.is/Sigurður Bogi

Áframhaldandi sókn fyrir háskólana

Í nýrri fjármálaáætlun sé boðuð áframhaldandi sókn fyrir íslenska háskóla. Auknu fjármagni verði dreift til þeirra í gegnum nýja árangurstengda fjármögnun háskóla, sem ráðherra kynnti síðastliðið haust. Þá verði skólagjöld afnumin í Háskólanum á Bifröst og Listaháskólanum frá og með næsta hausti. Slík aðgerð sé mikilvæg til að auka jöfn tækifæri nemenda til náms og hefur þegar leitt til stóraukinnar aðsóknar í Listaháskólann.

Að sama skapi verði áfram stutt við húsnæðisuppbyggingu háskólanna, ekki aðeins til að skólarnir geti tekið við fleiri nemendum heldur jafnframt til að bæta verknámsaðstöðu og efla gæði kennslunnar. Þannig sé fyrirhugað að reisa nýtt húsnæði heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands við Landspítalann auk þess að Listaháskólinn fái nýtt húsnæði. Byggja á nýtt færni- og hermisetur við Háskólann á Akureyri til að efla nám í hjúkrunarfræði og þá mun nýtt rannsókna- og nýsköpunarhús rísa við Háskólann í Reykjavík, að því er segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert