Málefnaleg umræða og ekkert sérstakt gagnrýnt

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra gerir ráð fyrir því að fjármálaáætlun fyrir árin 2025 til 2029 verði samþykkt í júní að loknu stuttu hléi sem gert verður á Alþingi vegna forsetakosninganna.

Sterk staða ríkissjóðs

„Umræðan hófst í gær og gekk hratt og vel fyrir sig,” svarar Sigurður Ingi, spurður út í umræðuna á Alþingi um fjármálaáætlunina.

„Mér fannst hún vera málefnaleg og ekkert sérstakt sem þar var gagnrýnt enda sýnir þessi fjármálaáætlun mjög sterka stöðu ríkissjóðs, sterka stöðu íslensks efnahagslífs og sterka stöðu heimila og fyrirtækja þrátt fyrir að hér sé hátt verðbólgustig og vextir,” segir ráðherrann, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Fordæmalaus árangur

Hann segir útgjaldavöxtinn í fjármálaáætluninni vera hófsaman og nefnir að Ísland hafi farið í gegnum ótrúlegan tíma síðustu þrjú árin með næstum 20% hagvöxt. Slíkt sé fordæmalaust í samanburði við nágrannaþjóðirnar á sama tíma.

„Þetta sýnir hvað við komum sterk út úr Covid-heimsfaraldrinum, hvað við vorum fljót að ná kraftinum, að landsframleiðslan sé komin á sama stað og spár gerðu ráð fyrir fyrir þann tíma. Það eru fáar ef sennilega engin önnur þjóð sem getur sýnt fram á þetta. Þessi fjármálaáætlun sýnir að hún ætlar að verja þá stöðu og þá miklu kaupmáttaraukningu sem hefur orðið í samfélaginu,” greinir Sigurður Ingi frá.

Hann nefnir að auknar líkur séu á því að markmiðið náist, bæði með langtíma kjarasamningum sem voru undirritaðir á almenna markaðnum og samningum á þeim opinbera þar sem viðræður standa yfir. 

„Þess vegna skipta máli þær kjarasamningsaðgerðir sem ríkisstjórnin lagði til og eru hluti af þessari fjármálaáætlun, þannig að já, ég er mjög bjartsýnn á að annars vegar munum við ná þessu öllu saman og það þarf ákveðið aðhald. Við erum með hófsöm útgjöld en það er útgjaldavöxtur í samfélagi sem gengur býsna vel,” segir ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert