Brotið á dreng sem ætlaði að koma upp um barnaníðing

Héraðsdómur Reykjaness mat framburð mannsins ótrúverðugan en drengsins trúverðugan.
Héraðsdómur Reykjaness mat framburð mannsins ótrúverðugan en drengsins trúverðugan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Gunnar Magnússon til 18 mánaðar fangelsisvistar fyrir að nauðga ungum dreng og beita hann kynferðisofbeldi.

Hafði drengurinn mælt sér mót við manninn í þeim tilgangi að koma upp um hann sem barnaníðing. Drengurinn tók með sér hníf til öryggis en fraus þegar hann heyrði í bíl mannsins. 

Var maðurinn ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa átt í samskiptum við piltinn í skilaboðum í síma, mælt sér mót við hann á heimili sínu, í því skyni að hafa við hann önnur kynferðismök, að kvöldi mánudagsins 2. ágúst 2021. 

Var hann einnig ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 19. ágúst 2021, haft önnur kynferðismök við piltinn í bifreið. Segir í dómsuppkvaðningu að maðurinn hafi nýtt yfirburðastöðu sína í aldri og þroska gagnvart drengnum. 

Fékk innblástur frá Kompás

Í aðdraganda brotanna hafði drengurinn horft á fréttaskýringaþátt Kompás og erlenda sjónvarpsþætti þar sem umsjónaraðilar þáttanna komu upp um barnaníðinga með því að þykjast vera börn og mæla sér mót við þá.

Hafði drengurinn haft hug á að koma upp um manninn sem hann komst í samband við á vefsíðu. Síðar færðust samskipti þeirra yfir í SMS-skilaboð.

Drengurinn mælti sér mót við manninn og ætlaði að taka upp samskipti þeirra á myndskeið. Hafði hann hníf meðferðis ef ske kynni að hann þyrfti að verjast manninum. 

Greindi drengurinn lögreglu, Barnahúsi og dómnum frá því að hann hefði aftur á mót frosið og gleymt öllum áformum sínum er maðurinn keyrði upp að honum og því ekki þorað að verjast manninum eins og hann hafði ætlað sér.

Dró upp hnífinn í íbúð mannsins

Maðurinn braut kynferðislega á drengnum í bifreiðinni á meðan hann ók að íbúð sinni.

Þegar í íbúðina var komið dró drengurinn upp hnífinn sem hann hafði meðferðis á meðan maðurinn, sem hafði byrjað að afklæða sig, sneri baki í hann. Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir drengnum að hann hafi hótað manninum, farið út úr íbúðini og hringt í lögregluna.

Er lögreglu bar að garði kom enginn til dyra. Skömmu síðar sást bifreið mannsins ekið á brott og var hún stöðvuð. Ökumaðurinn reyndist vera sá ákærði og var hann handtekinn á staðnum.

Maðurinn gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun daginn eftir og var fatnaður hans haldlagður til frekari rannsóknar.

Ætlaði að „fokka í honum“

Í móttökuskýrslu hjúkrunarfræðings er m.a. greint frá því að brotaþoli hafi komið á neyðarmóttöku í fylgd lögreglu og fulltrúa barnaverndar 20. ágúst 2021. 

Þar hafi brotaþoli meðal annars greint frá því að hann hafi verið í netsamskiptum við manninn í nokkrar vikur og hafi verið að „fokka í honum“ en maðurinn hafi verið ógeðslegur í samskiptum. Hann hafi tilkynnt lögreglu um manninn en ekki fengið svör og því upplifað að lögregla væri ekki að bregðast við.

Brotaþoli hafi hugsað um að vilja meiða manninn og þar af leiðandi mælt sér mót við hann. 

Segist hafa talið að um eldri mann væri að ræða

Fyrir dómi sagði drengurinn að maðurinn hefði verið vel meðvitaður um að hann væri undir lögaldri. Maðurinn kvaðst aftur á móti ekki hafa vitað að drengurinn væri barn og sagði samtöl þeirra á vefsíðunni sem þeir kynntust á ekki hafa verið af kynferðislegum toga.

Bar maðurinn m.a. fyrir sig að pilturinn hefði notað rétta íslensku í samskiptum þeirra og ekki notað „unglingamál“ og því talið að um fullorðinn mann væri að ræða.

Sagði maðurinn að honum hefði verið kunnugt um að einstaklingurinn segðist vera á vissum aldri en hefði haft efasemdir um það og haldið að hann væri eldri maður. 

Vildi hann ekki kannast við að neitt kynferðislegt hefði farið fram þeirra á milli í bílnum. Brotaþoli hefði verið með grímu og ekki tekið hana af sér fyrr en í íbúðinni. 

Spurður um hvað hann hefði ætlað sér að gera með brotaþola kvaðst ákærði hafa ætlað að skoða frímerkjasafn með honum og hittast til kynferðisathafna.

Dómurinn leit svo á að maðurinn hefði látið það sér í léttu rúmi liggja að pilturinn væri á barnsaldri.

Framburður mannsins ótrúverðugur

Mat dómurinn framburð mannsins ótrúverðugan og yfir skynsamlegan vafa hafinn en framburð drengsins trúverðugan. 

Við ákvörðun refsingar yfir manninum var tekið tilliti til þess að hann hefði ekki áður gerst brotlegur við lög. Einnig var þó tekið tillit til þess að mikill aldursmunur væri á ákærða og brotaþola og að brot hans hefðu beinst gegn mikilvægum verndarhagsmunum brotaþola, sem var barn að aldri. 

Var manninum gert að greiða drengnum 1 milljón í miskabætur ásamt öllum sakarkostnaði og málsvarnarlaunum. Var iPhone-sími hans einnig gerður upptækur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert