Heldur inn í nóttina tuttugu kílóum léttari

Bergur gengur nú um Hvalfjörðinn með góðum hópi fólks.
Bergur gengur nú um Hvalfjörðinn með góðum hópi fólks. Ljósmynd/Aðsend

Bergur Vilhjálmsson, göngugarpur og hörkutól, hefur lokið tuttugu kílómetrum af hundrað kílómetra göngu sinni um Hvalfjörðinn frá Akranesi í Grafarholt. Hann lagði af stað klukkan 14 í dag.

Þegar blaðamaður ræddi við Berg var hann að undirbúa sig undir það að halda aftur af stað eftir smá matarpásu, nú tuttugu kílógrömmum léttari en í upphafi göngunnar, með 190 kíló í eftirdragi. 

Berg­ur geng­ur til söfn­un­ar fyr­ir Píeta-sam­tök­in og til að heiðra minn­ingu móður besta vin­ar síns. Mun hann losa sig við 10 kíló af sleða sem hann dregur fyrir hverja 10 kílómetra sem hann gengur. Hvert lóð merkir einkennisorð andlegra örðugleika. 

„Þetta verður vonandi aðeins auðveldara,“ segir Bergur í samtali við mbl.is.

Bergur kvaðst vera orðinn örlítið lúinn og dálítið kaldur þegar …
Bergur kvaðst vera orðinn örlítið lúinn og dálítið kaldur þegar blaðamaður ræddi við hann. Hann er þó hvergi banginn. Ljósmynd/Aðsend

Þakklátur fyrir fólkið sem hefur lagt honum lið 

Aðspurður segir Bergur gönguna ganga vonum framar, það sé enn fullt af fólki með honum og einhverjir sem ætli sér að ganga með honum í alla nótt. Hann kveðst þó vera orðinn örlítið lúinn og dálítið kalt. 

Bergur lætur smá kulda þó ekki á sig fá og þakkar fyrir allt það fólk sem hefur lagt honum lið. 

„Maður er svo þakklátur fyrir þetta fólk að leggja manni lið. Það er bara ótrúlegt.“

Það er greinilegt að það eru margir sammála þér um mikilvægi málstaðarins.

„Algjörlega,“ segir Bergur. 

Það var nóg við að vera í húsbílnum, sem fylgir …
Það var nóg við að vera í húsbílnum, sem fylgir Baldri eftir, í stuttu stoppi eftir tuttugu kílómetra göngu. Ljósmynd/Aðsend

Bergur í beinu streymi 

Hægt er að fylgj­ast með Bergi í beinu streymi hér: 

Hægt er að styrkja söfn­un Bergs með því að leggja inn á eft­ir­far­andi reikn­ing:

Reikn­ings­núm­er: 0301-26-041041

Kennitala: 410416-0690.

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi einhverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við hjálp­arsíma Rauða krossins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert