Leggjast gegn hernaðarstuðningi við Úkraínu

Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.
Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga. Mynd úr safni

Samtök hernaðarandstæðinga [SHA] segja að þingsályktunartillaga um stuðning Íslands við Úkraínu árin 2024 til 2028 sé kúvending á stefnu Íslands.

SHA segja að sá hluti tillögunnar og greinargerðarinnar sem lýtur hernaðarstuðningi við Úkraínu, vanvirði samþykkta þjóðaröryggisstefnu Íslands og gildi Íslands.

Þetta kemur fram í ályktun frá SHA.

Segja hernaðarstuðning brjóta niður efnahag

„Í þessari stefnu felst sú kúvending á stefnu Íslands að hverfa frá því að taka ekki beinan þátt í styrjöldum með fjármögnun eða öðrum hernaðarstuðningi,“ segir í tilkynningunni.

Samtökin segja að þrátt fyrir að tillagan sé að koma núna til kasta þingsins þá hafi fulltrúar Íslands fylgt þessari stefnu í raun í einhvern tíma. Það hafi meðal annars komið fram í samþykkt yfirlýsinga á leiðtogafundi NATO í Vilníus, höfuðborg Litáens, í júlí 2023, þar sem samþykktur var margvísleg hernaðarstuðningur í stríðinu.

„Þá er þegar í fjárlögum fyrir árið 2024 gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. efnahags- og mannúðarstuðningi við Úkraínu með vinstri hendi, en jafnframt að leggja svo með hægri hendi fram 750 milljónir til viðbótar til hernaðarstuðnings sem brýtur niður efnahag og mannslíf,“ segir í ályktuninni.

Hafna fjármögnun á stríðsrekstri 

SHA segir að stefnan sé á beinan hátt að hvetja íslensk fyrirtæki til að flytja hergögn og að framleiða vörur fyrir heri. Þá gagnrýna samtökin einnig það að Landhelgisgæslan þjálfi úkraínska sjóliða og segja að hlutleysi íslenskra björgunaraðila sé þar með ógnað.

Þá segja samtökin að hvergi sé að finna aðgerðir sem stuðla að friðsamlegri lausn deilumála, afvopnun, né vopnahlés.

Samtökin kveðast styðja við það að veita Úkraínumönnum mannúðaraðstoð og hæli hér á landi. Einnig eigi Ísland að veita pólitískan stuðning og stuðning til enduruppbyggingar innviða.

„SHA hafna hins vegar alfarið öllum aðgerðum og fjármögnun Íslands á stríðsrekstri í Úkraínu. Allur sá hluti þessarar þingsályktunartillögu Alþingis og greinargerðarinnar með henni sem lýtur að þátttöku Íslands í hernaði í Úkraínu, vanvirðir bæði samþykkta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þau gildi sem Ísland hefur haft í heiðri um að vinna að friði og taka ekki þátt í stríði. Þar er á ósvífinn hátt verið að vefja hernaðarþátttöku inn í sáraumbúðir,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert