„Mér finnst þetta byrja á þessum degi“

Halla Tómasdóttir í ráðhúsinu í dag.
Halla Tómasdóttir í ráðhúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Núna vil ég meina að við séum komin út úr búningsherberginu og inn á völlinn og ætlum að fara ræða framtíðina,“ segir Halla Tómasdóttir. Halla kveðst vera bjartsýn.

Halla skilaði inn und­ir­skriftal­ista fyr­ir for­seta­kosn­ing­ar til Landskjörs­stjórn­ar fyr­ir skemmstu. 

„Mér finnst þetta byrja á þessum degi þegar kemur í ljós hverjir eru í framboði og við byrjum að eiga fleiri samtöl saman, ég og mínir meðframbjóðendur,“ segir Halla. 

Hvernig forseti verður Halla Tómasdóttir?

„Halla verður forseti sem vill byggja brýr, frekar en að grafa skurði. Halla verður forseti sem vill hlusta á þjóðina sína og virkilega fara fyrir þeim gildum og þeirri sýn sem þjóðin sjálf hefur. Þannig að ég verð í samtali og samstarfi við eins marga aðila og eru tilbúnir til þess. Ég mun leggja mikla áherslu á vellíðan ungs fólks sem og okkar eldra fólks,“ segir Halla. 

Skiptir máli að kjósa manneskju sem vill byggja brýr

Halla bauð sig fram til embættis forseta árið 2016 og vann sér inn talsvert mikið fylgi á lokasprettinum. Spurð hvort hún telji að það sama muni endurtaka sig segir hún:

Það auðvitað veit enginn og það á enginn neitt inni í svona kosningabaráttu. Ég hef trú á því að þegar fólk fær tækifæri til að sjá okkur sem í framboði erum muni það ekki láta neinn leiða sig um það hvern eigi að kjósa heldur mun fólk kjósa með hjartanu. Þetta er einstakt tækifæri til að gera það, eina kosningin sem við getum kosið einstakling. Það gæti skipt máli á þessum tímum að kjósa manneskju sem ekki kemur úr flokkspólitík, vill byggja brýr og horfa til framtíðar og leiða fólk úr öllum hópum og kynslóðum samfélagsins saman til að móta þessa framtíð.“

Spurð hvort hún sé bjartsýn á kosningabaráttuna fram undan kveðst Halla alltaf vera bjartsýn.

„Ég vel að vera hugrökk og bjartsýn á hverjum morgni, ég held að það skiptir máli. Og ég vona að við sem þjóð veljum að vera hugrökk og bjartsýn. Ég mun tala fyrir þeim gildum ásamt því að minna okkur á að við eigum að vera þakklát fyrir að hafa fæðst í þessu landi, með allar þessar auðlindir. En við eigum að halda á þeim þannig að næsta kynslóð verði þakklát fyrir það sem við gerum á okkar líftíma,“ segir Halla að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert