Björk varar við frumvarpi ríkisstjórnarinnar

„Vilj­um við gefa auðmönn­um firðina okk­ar?“ spyr Björk.
„Vilj­um við gefa auðmönn­um firðina okk­ar?“ spyr Björk. Ljósmynd/Aðsend

Söngkonan Björk Guðmundsdóttir varar við umdeildu frumvarpi um lagareldi og hvetur fólk til að setja nafn sitt á undirskriftalista Steinnunnar Ólínu Þorsteinsdóttur til að skora á Alþingi að hafna frumvarpinu.

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem í felst að gera rekstr­ar­leyf­i til lagareldis ótíma­bund­in. Hingað til hafa leyf­in verið tíma­bund­in til 16 ára í senn með mögu­leika á fram­leng­ingu.

Björk birti í dag færslu á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, og einnig á Instagram þar sem hún spyr: „Viljum við gefa auðmönnum firðina okkar?“

1.500 skrifað undir með Steinunni Ólínu

„Matvælaráðherra mælti á Alþingi í vikunni fyrir nýju frumvarpi um lagareldi þar sem gert er ráð fyrir að rekstrarleyfi laxeldisfyrirtækja í íslenskum fjörðum verði ótímabundið,“ skrifar Björk.

„Markmiðið er sagt eiga að bæta lagaramma um fiskeldi með aukinni áherslu á sjálfbærni og umhverfisvernd. Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, segir hins vegar að frumvarpið vinni gegn þessum hagsmunum,“ bætir hún við og hlekkjar undirskriftasöfnun við færsluna.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er ábyrgðarmaður söfnunarinnar.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir er ábyrgðarmaður söfnunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega 1.500 manns hafa skrifað undir. Ábyrgðarmaður undirskriftarsöfnunarinnar er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir forsetaframbjóðandi, sem hefur gagnrýnt frumvarpið og Katrínu Jakobsdóttur, mótframbjóðanda sinn.

Við undirskriftasöfnunina er skorað á Alþingi að hafna frumvarpinu, sem „heimilar mengandi iðnaðarframleiðslu með sjókvíeldi á viðkvæmustu svæðum við strendur Íslands undir litlu eftirliti og hefur hagsmuni leyfishafa í fyrirrúmi á kostnað almannahagsmuna og náttúru landsins.“

Björk hefur um hríð mælt gegn sjókvíaeldi. Í nóvember gaf hún út lagið Oral ásamt spænsku poppstjörnunni Rosalíu, sem fjallar einmitt um fiskeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert