Sviðsleikurinn er svolítið mitt

Ásthildur Úa er leikkona á uppleið. Hún hefur í fjórgang …
Ásthildur Úa er leikkona á uppleið. Hún hefur í fjórgang verið tilnefnd til Grímunnar, þrátt fyrir stuttan feril. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn fagran vordag lá leið mín vestur í bæ að hitta leikkonu sem talað er um að sé ein skærasta stjarna leikhúsheimsins í dag. Ásthildur, sem leikur í Borgarleikhúsinu um þessar mundir, er ung leikkona á uppleið sem fengið hefur glimrandi dóma fyrir hlutverk sín. Ferill hennar er kominn á flug, en hún hefur mikla ástríðu fyrir starfinu og segir leikhúsheiminn sinn heim.

Alin upp á gamla mátann

Leiklistarbakterían lét snemma á sér kræla en Ásthildur, sem er langyngst í fjölskyldu sinni, man varla eftir sér öðruvísi en að búa til leiksýningar og sýna.

„Áhuginn lá alltaf þar og ég sótti í leiklistina. Þetta er líka uppeldistengt en foreldrar mínir eru svolítið eldri og ég er alin upp við mikla hlustun á Rás 1 og á útvarpsleikritin þar. Auk þess voru foreldrar mínir hrifnir af íslenskri leiklist og ég horfði á mikið af myndbandsspólum af íslensku efni sem pabbi tók upp.“ 

„Ég er örverpið og því eins og einkabarn og fékk alla þá athygli sem ég þurfti. Foreldrar mínir eru bæði alin upp í sveit á Suðurlandi; úr Hrunamannahreppi og frá Skeiðum. Þótt ég sé alin upp í Reykjavík var ég alltaf í sveit hjá ömmu og afa á Skeiðum; öll sumur og allar helgar. Þau voru með búskap og þar eru mínar rætur.“ 

Í fjórðu tilraun

Eftir menntaskóla tók Ásthildur stefnuna beint í leiklist í LHÍ, en ekki tókst henni að komast þar inn strax. Ásthildur lagði ekki árar í bát þrátt fyrir að á móti blési.

„Ég komst inn í fjórðu tilraun. Ég fann mér alls konar annað að gera og reyndi alltaf aftur. Að sjálfsögðu var þetta erfiður tími en ég komst inn á hárréttum tíma fyrir mig. Ég hefði ekki viljað komast inn fyrr því ég hefði ekki verið tilbúin að fá það út úr náminu sem ég vildi. Ég hefði ekki getað mætt sjálfri mér á þessum tíma, en það er það sem þarf,“ segir Ásthildur.

Ásthildur Úa leikur eitt aðalhlutverka í Deleríum Búbónis sem var …
Ásthildur Úa leikur eitt aðalhlutverka í Deleríum Búbónis sem var sýnt í Borgarleikhúsinu í vetur. Ljósmynd/Grimur Bjarnason

„Þetta var leiðin sem ég þurfti að ganga og hún var brött, en rétt fyrir mig. Ég þurfti að stokka upp í lífi mínu og leggja meira á mig til þess að ég væri á besta stað fyrir mig til að komast inn,“ segir Ásthildur.

Tekið opnum örmum

Ferill Ásthildar hófst í leikriti í Tjarnarbíói sem hét The Last kvöldmáltíð eftir Kolfinnu Nikulásdóttur en síðan þá hefur hún leikið í Macbeth, Emil í Kattholti, Svartþresti, Lúnu og Deleríum Búbónis. Þess má geta að þrátt fyrir að ferill hennar sé nýbyrjaður hefur Ásthildur í fjórgang verið tilnefnd til Grímunnar sem hún segir mikinn heiður.

„The Last kvöldmáltíð fékk mikið lof, enda æðislegt verk. Ég sendi svo inn prufu í Borgarleikhúsið og fékk í kjölfarið viðtal hjá Brynhildi. Stuttu síðar var mér boðið í prufu fyrir Línu vinnukonu í Emil í Kattholti og fékk hlutverkið. Það var yndisleg sýning og gaman að fá að byrja í því hlutverki. Það var alltaf gaman að sýna þá sýningu, enda svo mikið hjarta í verkinu. Ég kynnist þá þorranum af leikurunum í Borgarleikhúsinu sem tóku mér opnum örmum.“

Næst fékk Ásthildur hlutverk í Svartþresti þar sem hún lék á móti Vali Frey Einarssyni en þau voru aðeins tvö á sviðinu.

„Það er virkilega gaman að fá að takast á við tveggja manna verk; það er svo mikið í húfi þegar það eru bara tveir á sviðinu.“ 

Opin fyrir tækifærum

Í dag leikur Ásthildur stór hlutverk í Lúnu og Deleríum Búbónis; verk sem bæði hafa hlotið mikið lof. 

„Sviðsleikurinn er svolítið mitt. Hjarta mitt slær í leikhúsinu þótt ég myndi ekki útiloka neitt,“ segir hún og segist ekki dreyma um rauða dregilinn í Hollywood.

Í Lúnu leikur Ásthildur á móti Hilmi Snæ og Sigurði …
Í Lúnu leikur Ásthildur á móti Hilmi Snæ og Sigurði Þór. Iris Dogg Einarsdottir

„Ég er mjög þakklát fyrir staðinn sem ég er á í lífinu og vildi hvergi annars staðar vera,“ segir hún og brosir.

Ítarlegt viðtal er við Ásthildi Úu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert