Hermann flyst um embætti og fallið verður frá ráðningarferli

Hermann Sæmundsson tekur við sem ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu …
Hermann Sæmundsson tekur við sem ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu 1. maí. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og Hermann Sæmundsson hafa gert með sér samkomulag um flutning Hermanns í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins úr embætti ráðuneytisstjóra í innviðaráðuneytinu.

Staðan var auglýst þann 19. febrúar. Átta umsóknir bárust en með flutningi Hermanns hefur ráðherra fallið frá því ráðningarferli. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Fylgir Sigurði Inga milli ráðuneyta

Í tilkynningu segir að embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytis hafi verið auglýst í Lögbirtingablaðinu og að þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd hafi verið skipuð til undirbúnings skipunar í embættið.

Með flutningi Hermanns hefur ráðherra því fallið frá því ráðningarferli sem hófst 19. febrúar sl. og nýtt sér heimild 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að flytja annan embættismann í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Hermann mun því fylgja Sigurði Inga Jóhannssyni úr innviðaráðuneytinu í fjármála- og efnahagsráðuneytið. 

Hermann hefur starfað í Stjórnarráði Íslands frá því í október 1996, í hartnær 28 ár. Í tilkynningu kemur fram að hann hafi sinnt margvíslegum störfum innan Stjórnarráðsins ásamt því að hafa gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum í umboði ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert