Ríkisfjármálin ósjálfbær þó staðan sé góð

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að Bessastöðum 9. apríl 2024.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að Bessastöðum 9. apríl 2024. mbl.is/Kristinn Magnússon

Staða íslensks efnahagslífs er góð. Hins vegar hafa ríkisútgjöld farið úr hófi fram og verða ósjálfbær ef fram heldur sem horfir. Tölur um aðhald í ríkisfjármálum eru ótrúverðugar þar sem þær eru óútfærðar. Þá eru ríkisútgjöld vegna Covid-19 enn til staðar í kerfinu og þykir það benda til þess að tímabundnar sértækar ráðstafanir hafi tilhneigingu til að haldast inni í kerfinu. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í álitsgerð fjármálaráðs fyrir árin 2025-2029 sem kynnt var í gær.  

Staðan góð en betur má gera 

„Staða íslensks efnahagslífs og opinberra fjármála er góð í samanburði við flest önnur lönd í Evrópu. Kaupmáttur hefur vaxið, atvinnuleysi er lágt, jöfnuður er mikill og lífskjör eru almennt með því besta sem þekkist meðal nágrannaþjóða okkar. Þá eru skuldir hins opinbera ekki mjög háar í alþjóðlegum samanburði.“ Þannig hljóma upphafsorð álitsgerðarinnar.

Í framhaldinu kveður hins vegar við annan tón og bendir fjármálaráð á nokkra hluti sem betur mega fara. Sérstaklega eru gerðar athugasemdir við þau miklu ríkisútgjöld sem einkennt hafa ríkisfjármálin undanfarin ár.

Eimir enn af Covid-19 aðgerðum

Er meðal annars bent á það að útgjaldaaukning ríkisins sé enn ekki komin á þann stað sem hún var fyrir Covid-19, ólíkt nágrannalöndunum. Þess í stað var það svigrúm sem skapaðist vegna kröftugrar viðspyrnu atvinnulífsins að hluta nýtt til eyðslu ríkisins.

„Svigrúmið sem myndaðist þegar dró úr kostnaði við aðgerðir tengdar Covid-19 var að hluta eytt í ný útgjöld. Af þeim sökum eru útgjöld hins opinbera í framlagðri fjármálaáætlun hærri en þau voru fyrir heimsfaraldurinn,“ segir í álitsgerðinni. Bent er á það að þróun síðustu ára bendi til þess að tímabundin útgjöld eigi það til að verða varanleg.

„Stjórnvöld þurfa að huga að því að búa þannig um hnútana að slíkt gerist ekki þegar grípa þarf til aðgerða í kjölfar ófyrirséðra efnahagslegra áskorana,“ segir í álitsgerðinni.

Ósjálfbær útgjaldavöxtur 

Bent er á að útgjaldavöxtur síðustu ára sé ósjálfbær og þær aðhaldsaðgerðir sem sagðar eru framundan séu óútfærðar og fyrir vikið ótrúverðugar. Eins að ógagnsæi ríkisfjármála sé slíkt að ómögulegt sé fyrir fjármálaráð að fylgjast með útgjöldum hverju sinni.

Er á það minnst að fjárhagsleg afkoma hins opinbera sé „veik“ vegna þeirrar útgjaldaaukningar sem verið hefur og kallað er eftir aðhaldi. Segir að sparnaðarráðstafanir sem sagðar eru framundan séu með öllu óútfærðar.

„Fjármálaráð telur ekki trúverðugt að hafa 27 ma.kr. árlegt aðhald óútfært, sem
kemur til viðbótar almennri hagræðingarkröfu á tilteknar stofnanir.“ Raunar telur ráðið að aðgerðir og útgjöld sem birtast fyrst í fjárlögum draga úr trúverðugleika fjármálaáætlana og um fer um leið á svið við grunngildi stöðugleika.

Þá er gerð athugasemd við ógagnsæi í tengslum við óútfæðar áætlanir um sölu eigna árið 2028 sem ætlað er að skapa ríkinu 25 milljarða í tekjur. 

Stærstur hluti í fæðingarorlof og skólamáltíðir

Eins nefnir fjármálaráð að af þeim 80 milljörðum sem settar hafa verið í kjaraviðræður mun 42,3% upphæðarinnar fara í fæðingarorlof og skólamáltíðir. Telur ráðið að betur færi á því að tilfærslur eigna beindust frekar að hópum sem taldir eru mest þurfa á að halda.

Þá sé skortur á gagnsæi varðandi það hvers vegna áætlanir geri ráð fyrir að draga muni úr vexti útgjalda vegna örorku og ellilífeyris. Telur fjármálaráð að traustari og gagnsærri greining þurfi að liggja þar að baki.

Þá er gerð athugasemd við að ríkið miði við Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands við fjármálagerð sökum þess að í henni er hvergi gert ráð fyrir áföllum. Reynslan sýni hins vegar að áföll séu regla fremur en undantekning í íslensku hagkerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka