2.000 lömb í sauðburðinum á Klifmýri

Rúnar Hermannsson hér í fjárhúsinu þar sem einum af heimalningnum …
Rúnar Hermannsson hér í fjárhúsinu þar sem einum af heimalningnum er gefin mjólk af pela. mbl.is/Sigurður Bogi

„Sauðburðurinn er skemmtilegur tími, en dagarnir langir,“ segir Rúnar Hermannsson bóndi á Klifmýri á Skarðsströnd í Dölum.

Þar stendur hann að einu stærsta fjárbúi landsins, var með á vetrarfóðrum alls um 1.160 ær, sem nú eru byrjaðar að bera. Fyrstu lömbin komu 24. apríl og nú eru þau orðin samanlagt um 100. Þetta er þó aðeins upphafið; sauðburði á Klifmýri lýkur ekki fyrr en í maílok og Rúnar reiknar með að ærnar beri alls um 2.000 lömbum.

Jörð í Dölum er enn sinugul yfir að líta, en mun þó grænka fljótt með rigningu og hlýnandi veðri. Þá verður fé, ám og lömbum, hleypt út. Í dag er allt haft á húsi; og ærnar eru gjarnan hafðar í stíu með lömbum sínum fyrsta sólarhringinn eftir burð. Lífið vaknar. Vorið góða grænt og hlýtt, sagði skáldið.

Ærin hugar að ungviðinu.
Ærin hugar að ungviðinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Vakt allan sólarhringinn

„Sauðburðurinn kallar á yfirlegu og fylgjast þarf vel með fénu. Hér þarf að manna vaktir í fjárhúsinu allan sólarhringinn. Þar hef ég notið þess að móðir mín og systkini kunna til verka og eru hér með mér. En ég ætlaði mér alltaf að verða bóndi; ákvað það átta ára,“ sagði Rúnar þegar Morgunblaðið leit við hjá honum fyrr í vikunni. Hann segir að nú sé hann á vaktinni gjarnan 18-20 tíma á sólarhring, en geti þó tekið sér kríublund inni á milli.

Rúnar, sem er 25 ára að aldri, er uppalinn á Klifmýri; þar sem foreldrar hans, þau Hermann Karlsson og Guðrún Elísabet Jóhannsdóttir, voru lengi með búskap. Þau fluttu sig í byrjun árs 2022 að bænum Stór-Múla í Saurbæ í Dölum. Eftirlétu Rúnari þá Klifmýri; sem er ágæt jörð og hentar vel fyrir sauðfjárbúskap.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert