Ekki tekið heiðarlegt samtal við ríkisstjórnarborðið

Þorgerður segir ljóst að ríkisstjórnin hafi ekki tekið heiðarlegt samtal …
Þorgerður segir ljóst að ríkisstjórnin hafi ekki tekið heiðarlegt samtal við ríkisstjórnarborðið um það hvernig eigi að draga úr vexti útgjalda og tryggja hagræðingu í rekstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029 er ótrúverðug og er það meginstefið í áliti fjármálaráðs á fjármálaáætluninni.

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is. Hún segir að gagnrýnin sem komi fram af hálfu fjármálaráðs sé mjög skýr og skiljanlega.

„Stóra atriðið er að þau eru að draga fram að þetta er ótrúverðug leið hjá ríkisstjórninni, hvernig hún ætlar að draga úr vexti útgjalda á næstu árum. Það er allt mjög ótrúverðugt hjá ríkisstjórninni í framsetningu,“ segir Þorgerður.

Í álitsgerðinni kemur fram að staða ís­lensks efna­hags­lífs sé góð en hins veg­ar hafi rík­is­út­gjöld farið úr hófi fram og verða ósjálf­bær ef fram held­ur sem horf­ir. Töl­ur um aðhald í rík­is­fjár­mál­um eru ótrúverðugar þar sem þær eru óút­færðar.

Þá eru rík­is­út­gjöld vegna Covid-19 enn til staðar í kerf­inu og þykir það benda til þess að tíma­bundn­ar sér­tæk­ar ráðstaf­an­ir hafi til­hneig­ingu til að hald­ast inni í kerf­inu.

Fjármálaráðherrarnir hlusta ekki

Hún segir að álitsgerðin sé í takti við það sem Viðreisn hefur sagt á undanförnum árum sem og alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

„Það er sama hvað það eru margir fjármálaráðherrar sem ríkisstjórnin setur fram, þeir virðast bara ekki hlusta á þessa gagnrýni. Hvorki okkar né fjármálaráðs,“ segir Þorgerður.

Hún segir að það þurfi að skýra hvar boðuð hagræðing eigi að koma og hvar ríkisstjórnin komi til með að losa um ríkiseigur.

„Því ferli hefur ríkisstjórnin sjálf klúðrað. Við þurfum á fjármagni að halda, bæði til þess að byggja upp innviði en líka til að greiða niður skuldir. Það er að hluta til líka ótrúverðugt hvernig hún [ríkisstjórnin] ítrekað, ár eftir ár, segir „heyrðu nú ætlum við að fara losa um ríkiseigur“ en henni tekst það ekki svo heiti getur,“ segir Þorgerður.

Lýsir metnaðarleysi

Hún segir það blasa við að ríkisstjórnin hafi ekki tekið heiðarlegt samtal við ríkisstjórnarborðið um það hvernig eigi að hagræða í rekstri ríkisins.

„Það er ekki tilviljun að við erum með viðvarandi lengur verðbólgu heldur en annars staðar. Aðrar þjóðir fóru vissulega upp líka en þær voru mjög fljótar að ná verðbólgunni niður. Það hefur ekki tekist hér á landi af einhverju ráði. Ef við ætlum að fagna 6% verðbólgu þá finnst mér það lýsa algjöru metnaðarleysi,“ segir hún og bætir við að ótrúverðugleiki í ríkisfjármálunum gefi lítið svigrúm fyrir seðlabankann til að lækka vexti.

Óheft og engar hömlur

Hún segir að einnig þurfi að fara betur með fjármuni en kveðst þó ekki vera að tala fyrir flötum niðurskurði.

„Það hefur sýnt sig að það bitnar til að mynda mjög á lögreglunni. Ég held að ríkisstjórnin þurfi að gera eins og heimili landsins og fyrirtæki landsins. Þau skera niður það sem má frekar missa sín, eða hagræða þar sem er ekki þung áhersla á.

Þetta hefur ríkisstjórnin ekki sett neina vinnu í af ráði, því að hver ráðherra er bara með sín útgjöld, sína blaðamannafundi og þetta er allt saman óheft og engar hömlur á þessu. Fyrir vikið er þetta ótrúverðugt,“ segir Þorgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka