Með áldós í gogginum

Gæsin er með áldós fasta í gogginum.
Gæsin er með áldós fasta í gogginum. Ljósmynd/Aðsend

Vegfaranda brá í brún á akstri í Gufunesi fyrr í dag. Við honum blasti gæs í vanda þar sem hún gekk um með áldós fasta í gogginum.

Starfsmenn frá Dýraþjónustu Reykjavíkur reyndu að aðstoða fuglinn en þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og fuglinn flögraði á brott með Collab-dós í kjaftinum.

Finnst þetta hræðilegt  

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík, er vegfarandinn sem varð gæsarinnar vör.

„Ég er mikill dýravinur og mér finnst þetta hræðilegt,“ segir Ásrún í samtali við mbl.is.

Hún segir að gæsin hafi verið í hópi fleiri gæsa og að sjánlega hafi hún ekki verið veikluleg. Raunar virtist hún fremur spræk. Eftir tilraun til að aðstoða gæsina setti Ásrún sig í samband við Dýraþjónustu Reykjavíkur og þar fengust þær upplýsingar að þriggja manna teymi hefði farið á staðinn og reynt að ná gæsinni.

Það hafi hins vegar ekki gengið þar sem gæsin hafi hafið sig til lofts áður en hægt var að koma henni til hjálpar.

Ásrún Helga Kristinsdóttir er forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.
Ásrún Helga Kristinsdóttir er forseti bæjarstjórnar Grindavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Á leið til til Grindavíkur 

Ásrún leigir íbúð í Gufunesi og var á leið til Grindavíkur þegar hún stöðvaði bílinn til að hleypa gæsahópi yfir götuna og sá hún þá dósina í goggi einnar gæsinnar.  

„Við mannfólkið getum gert betur og gengið betur um náttúruna til að sporna við svona,“ segir Ásrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert