Frambjóðendur svara: Jón Gnarr

Jón Gnarr segist hafa farið óhefðbundna leið í lífinu.
Jón Gnarr segist hafa farið óhefðbundna leið í lífinu. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Jón Gnarr, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segist hafa mikla og fjölbreytta lífsreynslu. Hann hafi margslungið vald á íslenskri tungu og hæfni til að beita henni á skapandi og áhrifaríkan hátt og hafi jákvæð áhrif á fólk. 

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Jóns Gnarr er að forsetinn fylgist vel með þjóð sinni og sé með puttann á þjóðarpúlsinum. 

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eft­ir fara svör Jóns við spurn­ing­um mbl.is og Morg­un­blaðsins:

Jón Gnarr býður sig fram til embættis forseta Íslands.
Jón Gnarr býður sig fram til embættis forseta Íslands. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Hvað finnst þér mik­il­væg­ast við embætti for­seta Íslands?

Forsetinn á að fylgjast vel með þjóð sinni og vera með puttann á þjóðarpúlsinum. Skynja stemminguna, blása fólki kjark í brjóst þegar á móti blæs og hughreysta og gleðjast með þjóð sinni þegar vel gengur. Forseti þarf að hafa sjarma og útgeislun, vera áhugaverður og skemmtilegur fulltrúi okkar áhugaverðu og skemmtilegu þjóðar.

Hvað hef­ur þú helst fram að færa til embætt­is­ins um­fram aðra fram­bjóðend­ur?

Mikla og fjölbreytta lífsreynslu, margslungið vald á íslenskri tungu og hæfni til að beita henni á skapandi og áhrifaríkan hátt og hafa jákvæði áhrif á fólk. Ég hef farið óhefðbundna leið í lífinu sem veitir mér innsýn inn í svo margar hliðar af íslensku samfélagi. Ég er t.d. eini frambjóðandinn í efstu sætum skoðanakannana sem er sjálfstætt starfandi.

Á maki for­seta að hafa form­lega, launaða stöðu?

Það fer eftir aðstæðum og eitthvað sem þarf að semja um í hverju tilfelli.

Á for­seti að vera virk­ur þátt­tak­andi í þjóðmá­laum­ræðu?

Forseti á að vera virkur í þjóðmálaumræðu, sérstaklega þar sem halda þarf uppi vörnum fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Hann þarf að vera vakandi fyrir því að engir þjóðfélagshópar gleymist. Forsetinn þarf að vera með puttann á púlsinum og skynja stemninguna í samfélaginu á hverri stundu. Forseti á að nota stöðu sína til að leiða til sátta þar sem ósætti er.“ 

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lög­um staðfest­ing­ar: rök stjórn­ar­and­stöðu, mót­mæli, ráðgjöf eða eig­in dómgreind?

Mótmæli, ráðgjöf og eigin dómgreind. Fyrst og fremst mikil almenn andstaða við málefnið, formleg undirskriftasöfnun, fagleg ráðgjöf í bland við eigin sannfæringu. 

Hver eru brýn­ustu viðfangs­efni Íslend­inga nú og hvað hef­ur for­seti til þeirra mála að leggja?

„Brýnustu viðfangsefnin eru með hvaða hætti við ætlum að nýta auðlindir okkar og að við gerum það í sem mestri sátt. Samband menningar og náttúru þarf alltaf að byggja á málamiðlun og þar hefur forsetinn veigamiklu hlutverki að gegna. 

Það er brýnt að sætta ólíka hópa á Íslandi áður en það er orðið um seinan. Það þarf að hjálpa innflytjendum að aðglagast samfélaginu betur, það þarf að brúa bilið milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Það þarf að finna leið til að sætta „góða fólkið“ og „vonda fólkið“. Þar mun ég sem forseti gegna lykilhlutverki. 

Það þarf að efla og styrkja íslenska tungu og ég held að fáir séu betur fallnir til þess en ég. Íslensk tunga hefur verið verkfæri mitt alla ævi, í allri minni list og ég elska hana af öllu hjarta.

Hver er hæfi­leg­ur tími í embætti fyr­ir for­seta?

Tvö kjörtímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert