Loftgæði í lagi og gestafjöldi fram úr væntingum

Kringlan opnaði aftur á fimmtudag en þá mátti enn sjá …
Kringlan opnaði aftur á fimmtudag en þá mátti enn sjá iðnaðarmenn að störfum. mbl.is/Eyþór

Gestafjöldi í Kringlunni hefur verið framar vonum frá því verslunarmiðstöðin opnaði að nýju eftir eldsvoða. Allt að 90% verslunarmiðstöðvarinnar er opin og loftgæði hafa verið metin viðunandi.

Kringlan opnaði aftur á fimmtudaginn eftir að hafa verið lokað tímabundið vegna eldsvoða.

Í tilkynningu frá Kringlunni segir að gestafjöldi síðustu daga hafi verið framar vonum og er hann er sambærilegur og hann var á sama tíma í fyrra.

Loftgæði vottuð af Eflu 

Þegar er búið að opna um 90% verslana og annarra staða í Kringlunni en gert er ráð fyrir að fleiri verslanir bætist í hópinn á næstu dögum eftir að nýjar sendingar berast. 

Húsnæði um tíu verslana varð fyrir skaða sem krefst meiri framkvæmda en í tilkynningu segir að gera megi ráð fyrir að þær opni að nýju í lok sumars. 

Þá kemur fram að verkfræðistofan Efla meti loftgæðin góð en í vikunni fjallaði mbl.is um að Kringlan hafi varað gesti sem veikir voru fyrir við loftgæðum í byggingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert