Bara einn ennþá með stöðu grunaðs

Þjófarnir höfðu á brott með sér um 20-30 milljónir króna …
Þjófarnir höfðu á brott með sér um 20-30 milljónir króna úr ráninu í Hamraborg. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsókn á þjófnaði í bifreið Öryggismiðstöðvarinnar er enn í gangi og hefur einn verið yfirheyrður vegna gruns um þjófnaðinn.

„Við erum búin að yfirheyra einn aðila og síðan kemur bara í ljós hvað kemur út úr því,“ segir Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is í dag.

Áréttar hann að búið sé að yfirheyra og taka skýrslur af mörgum öðrum en aðeins einn hafi verið yfirheyrður með stöðu grunaðs.

Tæknigögn enn til skoðunar

Málið varðar þjófnað tuga milljóna króna úr öryggisbifreið á vegum Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í lok mars. Segir Heimir að enn vanti stóran hluta fjármunanna.

Að sögn Heimis er málið enn í rannsókn og bíður lögregla eftir gögnum frá tæknideild áður en næstu skref verða tekin. „Við getum séð hvort að við fáum eitthvað út úr tæknigögnunum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka