Segir Hjálmar hafa misnotað aðstöðu sína

Hjálmar Jónsson fyrrverandi framkvæmdastjóri og formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson fyrrverandi framkvæmdastjóri og formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Hari

Lögmaður LOGOS segir í minnisblaði sínu vegna starfa Hjálmars Jónssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands, að Hjálmar hafi að sínu mati misnotað aðstöðuna sem hann fékk í krafti umboðs síns til ráðstöfunar á fjármunum félagsins.

Stjórn fé­lags­ins óskaði eft­ir lög­fræðiáliti frá LOGOS lög­fræðiþjón­ustu um mögu­lega refsi­á­byrgð Hjálm­ars vegna hátt­semi hans í starfi. Í kjölfarið ákvað stjórnin á fundi sínum í lok júní að kæra hann ekki þrátt fyrir að í minnisblaðinu sé talað um ámælisverða og jafnvel refsiverða háttsemi. 

Hjálmar segir það ekki hafa komið sér á óvart að núverandi stjórn félagsins hafi ákveðið að kæra hann ekki fyrir brot í starfi, enda hafi aldrei verið efni til þess að neinu leyti.

Ef ekki fjárdráttur, þá umboðssvik

„Ef ekki væri fallist á fjárdrátt yrði að öllum líkindum fallist á umboðssvik þar sem andlag ákvæðisins er miklu víðtækara en andlag fjárdráttar," segir í minnisblaði lögmannsins.

Þar segir einnig að skilyrði fyrir refsingu sé að brot hafi verið framið í auðgunarskyni. „Komi til kæru og síðar ákæru yrði að líkindum ekki erfitt að sýna fram á slíka persónulega auðgun framkvæmdastjórans. Við mat á refsingu, ef málið færi í kæruferli og síðar væri möguleg ákæra gefin út, yrði litið til þess að háttsemin var viðhöfð um árabil. Til málsbóta yrði væntanlega litið til þess að hann endurgreiddi lánin til baka samkvæmt okkar skilningi sem og greiddi félaginu fyrir tölvu þegar þess var krafist að henni væri skilað eftir starfslok."

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, og Hjálmar Jónsson.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, og Hjálmar Jónsson. Samsett mynd

„Lausung í daglegum rekstri“

Fram kemur einnig í minnisblaðinu að fyrir utan þau atriði sem lögmaðurinn telur mögulega vera refsiverð séu rakin ýmis atriði í skýrslu KPMG, sem minnisblaðið var m.a. byggt á, sem snúi að styrkveitingum, veitinga- og ferðakostnaði og fleiru þar sem ekki virðist hafa verið sótt heimild til stjórnar.

„Tekið er undir með KPMG að slíkt feli í sér áhættu á misferli en ekki þarf að vera um refsiverða háttsemi að ræða og ekki auðgun í eigin reikning, þótt það sé vissulega möguleiki. Hér er að mínu mati frekar um að ræða lausung í daglegum rekstri félagsins, skort á skýrum verklagsreglum og lélegt utanumhald á skrifstofu félagsins sem er á ábyrgð framkvæmdastjóra. Er nærtækara að heimfæra það sem lélega framkvæmdastjórn frekar en refsiverða háttsemi. Tekið er undir þær tillögur um úrbætur sem raktar eru í skýrslu KPMG," segir í minnisblaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert