Gagnrýna skort á eftirliti með minkagildrum

Samsett mynd af minkagildrunni og kettinum sem lenti í henni.
Samsett mynd af minkagildrunni og kettinum sem lenti í henni. Ljósmynd/Villikettir

„Það er náttúrulega ekki í lagi að fólk sé bara að setja gildrur út og sé svo ekki að pæla í þeim aftur,“ segir Jacobina Joensen, formaður Villikatta, í samtali við mbl.is. Vísar hún í minkagildru sem köttur festist í og hlaut lífshættulegan skaða af.

Villikettir fjölluðu um svaðilfarir kattarins á Facebook-síðu samtakanna þann 20. júní þar sem notkun minkagildra var fordæmd. Var því þá lýst að kötturinn hefði fest fót í slíkri gildru og væri í lífshættu vegna sára sinna.

Vilja að málið sé tekið alvarlega

Spurð hvort liggi fyrir hver beri ábyrgð á gildrunni sem kötturinn festist í segir Jacobina svo ekki vera. Gerir hún þó grein fyrir að samtökin séu komin í samband við lögfræðing og Dýraþjónustu Reykjavíkur varðandi málið.

„Þetta er náttúrulega stærra mál,“ segir Jacobina og bætir við: „Við þurfum að vinna í að láta banna þetta.“

Segir hún tímabært að sá skaði, sem svona gildrur geta valdið, sé tekinn alvarlega. Þá sé unnt að bæta eftirlit með slíkum tækjum til að tryggja að dýr kveljist ekki í þeim tímum eða jafnvel dögum saman.

Kötturinn er ekki lengur í lífshættu og er á batavegi.
Kötturinn er ekki lengur í lífshættu og er á batavegi. Ljósmynd/Aðsend

Hver sem er geti lagt gildru

„Það getur hver sem er lagt út minkagildru,“ segir Bjarni Pálsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun í samtali við blaðamann mbl.is.

Útskýrir hann að stofnunin haldi ekki úti minkagildrum, heldur sjái sveitarfélögin um það og ráði til þess minkabana. Nefnir hann þá að með leyfi landeiganda geti hver sem er lagt minkagildru.

„Það þarf náttúrulega leyfi landeigenda eins og með aðrar veiðar, það má ekki hver sem er veiða hvar sem er,“ segir hann.

„Þú þarft líka aðeins að vita hvað þú ert að gera,“ bætir hann við og vísar þá til að reyna skuli að koma í veg fyrir að önnur dýr en minkar festist í gildrunum.

Bjarni Pálsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir Sveitarfélög ráða til sín …
Bjarni Pálsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir Sveitarfélög ráða til sín minkabana sem í einhverjum tilfellum leggja út gildrur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gildrum ætlað að aflífa en ekki kvelja

Spurður hvort reglur séu með eftirliti minkagildra svarar Bjarni neitandi.

„Umhverfisstofnun er ekki að fara um landið og leita uppi minkagildrur og athuga hvort þær séu rétt lagðar,“ segir hann.

Að sögn Bjarna hefur stofnunni oft borist spurningar um hvort leggja megi svokallaðar „lífgildrur“, þar sem dýr lokast af en eru ekki aflífuð. Segir hann slíkar gildrur ekki leyfðar vegna dýravelferðar.

„Sé gildru ekki vitjað að lágmarki einu sinni á dag þá getur dýrið bara verið að veslast og kveljast inni í svoleiðis gildru,“ útskýrir hann.

Köttur myndi líklega ekki hljóta bana af

Bjarni segir kröfur gerðar um að minkagildrur aflífi minka á sem skjótastan og kvalarminnstan hátt. Þá sé miðað við að þeir drepist strax, en þegar stærri dýr lenda í þeim sé ekki tryggt að þau deyi.

Spurður hvort dýr af sambærilegri stærð og köttur myndi hljóta banasár af slíkri gildru segir Bjarni svo ekki þurfa að vera.

„Þá þarf líka að leggja gildruna þannig að svona kettir eigi ekki leið í hana,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert