Bólusetning barna ónóg gegn mislingum og kíghósta

Guðrún Aspelund ræðir við mbl.is um árlega skýrslu sóttvarnalæknis um …
Guðrún Aspelund ræðir við mbl.is um árlega skýrslu sóttvarnalæknis um þátttökutölur í almennum bólusetningum barna á árinu 2023. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bólusetning barna gengur ágætlega á Íslandi en betri þátttöku þarf í bólusetningu gegn kíghósta og mislingum. Af tæplega 66 þúsund bólusetningum hjá börnum í fyrra þá var aðeins ein tilkynning um alvarlega aukaverkun.

Þetta segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is um nýútgefna skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum barna árið 2023.

„Þátttaka er ágæt og hefur verið en við erum alltaf að hugsa og skoða hvað við getum gert betur. Það eru hlutir þar sem við getum gert það [betur],“ segir Guðrún.

Hætta á dreifingu mislinga

Þátttökuhlutfall í bólusetningu gegn mislingum er um það bil 90% en þyrfti að vera um 95%. Hún segir þátttökuhlutfallið hafi verið undir markmiði í nokkur ár en að það hafi verið betra á Íslandi fyrir tæplega 10 árum.

„Það þarf að vera yfir 95% til að ná hjarðónæmi. Þetta er mjög gott bóluefni. Það ver bæði gegn smiti, sem ekki öll bóluefni gera, en síðan líka gegn veikindum auðvitað. Hjá okkur er þátttakan fyrir skammt eitt og tvö – það eru sem sagt tveir skammtar – um 90% þegar hún þyrfti að vera yfir 95%. Þá erum við í hættu á því að það geti dreifst mislingar ef þeir koma til okkar,“ segir Guðrún.

Þátttaka innan við 90%

Þá nefnir hún að þátttökuhlutfall fjögurra ára barna í bólusetningum gegn kíghósta sé ekki nógu gott heldur. Þátttökuhlutfallið er um 87% en hún segir að það þyrfti að vera yfir 90%.

„Eins og við sáum bara núna í vor þegar það kom kíghósti og það varð töluvert um smit og hluti af því voru börn. Hluti af því voru líka fullorðnir sem þurfa að fá aðra bólusetningu en þetta er ekki nógu gott í fjögurra ára skoðuninni,“ segir Guðrún.

Bólusett er við kíghósta þrisvar sinnum. Hún segir heilsugæsluna standa sig vel með ungbarnaskoðun en það þurfi að bæta bólusetningarhlutfall barna gegn mislingum og kíghósta.

Minni skortur á bóluefnum

„Almennt er þetta ágætt og það eru líka góðir hlutir sem gerðust í fyrra. Til dæmis með HPV að nú er þetta boðið óháð kyni, áður var það bara stúlkur. Þar er nýtt bóluefni sem ver þá ekki bara gegn krabbameini heldur líka gegn kynfæravörtum,“ segir hún.

Þá var ekki jafn mikill skortur á bóluefni í fyrra og árið á undan. Þó var DTP-IPV bóluefni (Boostrix-polio) illfáanlegt allt árið.

Ein tilkynning um alvarlega aukaverkun

Fjöldi bólusetninga hjá börnum í markhópi árið 2023 var 65.943. Af því var aðeins ein tilkynning til Lyfjastofnunar um alvarlega aukaverkun en enn á eftir að rannsaka orsakasamhengi.

Hún segir bólusetningar skipta verulega máli til að koma í veg fyrir smit og veikindi.

Hún nefnir að þátttaka á sumum stöðum í Evrópu hafi ekki verið nógu góð og því hafi fylgt mislingasmit og kíghóstasmit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert