Upplifðu óreiðukennt skipulag

Björgunarfólk að störfum í Grindavík í janúar síðastliðnum.
Björgunarfólk að störfum í Grindavík í janúar síðastliðnum. Ljósmynd/Landsbjörg

Verkfræðistofan Efla segist hafa brýnt fyrir starfsfólki við sprungufyllingar í Grindavík að fara ekki úr tækjum sínum og vinna aldrei eitt.

Í samtölum Vinnueftirlitsins við verktaka sem unnu sambærileg verk og það sem varð til þess að karlmaður féll ofan í sprungu við Vesturhóp og lést, kom aftur á móti fram að ekki könnuðust allir við að hafa fengið þessar upplýsingar. Sumir þeirra upplifðu að skipulag vinnunnar hefði verið nokkuð óreiðukennt. Það sama sögðu eigandi verktakafyrirtækisins sem tók að sér verkið við Vesturhóp og starfsmaður þess. Engu skriflegu áhættumati var heldur til að dreifa.

Víbrósleði bilaði daginn áður

Fram kemur í skýrslu Vinnueftirlitsins um vinnuslysið að lagt hefði verið upp með að verkið skyldi unnið úr gröfu með áfastan „víbrósleða“ til að starfsmenn þyrftu ekki að fara úr tækjum sínum við vinnuna. Verkfræðistofan Efla leitaði til umrædds verktakafyrirtæks vegna þess að það var með slíkan búnað, auk þess sem verktakinn og starfsmaðurinn sem lést höfðu mikla reynslu af jarðvegsvinnu.

Björgunarfólk ofan í sprungunni.
Björgunarfólk ofan í sprungunni. Ljósmynd/Landsbjörg

Fram kemur að maðurinn sem lést hafi unnið með lausa jarðvegsþjöppu sem stóð á fyllingunni við húsið í Vesturhópi þar sem ekki var hægt að vinna með víbrósleðann sem var áfastur gröfunni þar sem hann hafði bilað daginn áður.

„Verkfræðistofunni var kunnugt um bilunina en kveðst ekki hafa haft vitneskju um að til stæði að nýta lausa jarðvegsþjöppu við verkið og að fyrirmæli hennar hafi verið að öll vinna á svæðinu skyldi unnin úr vélum. Talið er að jörðin hafi skyndilega opnast þar sem A var við störf og að hann hafi að öllum líkindum fallið niður ásamt þjöppunni,“ segir í skýrslunni.

Hola myndaðist þegar stuðull losnaði

„Þegar ljóst var að A hefði að öllum líkindum fallið niður um holuna seig fyrrnefndur starfsmaður verkfræðistofunnar, sem er jafnframt björgunarsveitarmaður, niður með björgun í huga. Þegar sigið var ofan í holuna kom í ljós að mikið holrými var þar undir. Bergið við sprunguna var stuðlað og holan sem A féll að öllum líkindum niður um virðist hafa myndast við að einn stuðull hafi losnað og stungist niður. Stuðullinn hafi ekki verið úr brún sprungunnar heldur úr stuðlaröð númer tvö frá brún sprungunnar sem var örfáum metrum frá brún,“ segir þar einnig.

Fram kemur í skýrslunni að ekki sé líklegt að þjappan sem var unnið með hafi beinlínis valdið því að stuðullinn féll. Alþekkt sé í sambærilegum jarðmyndunum annars staðar að stuðlar falli úr stuðlabergi. Það gerist vegna veðrunar og oft samspils hreyfinga í berginu, til dæmis vegna jarðskjálfta eða frostþenslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert