Sýknudómur í Lindarhvolsmálinu stendur

Arnar Þór Stefánsson lögmaður ásamt Sigurði Valtýssyni, sem er einn …
Arnar Þór Stefánsson lögmaður ásamt Sigurði Valtýssyni, sem er einn eigenda Frigusar, þegar dómur féll í héraðsdómi í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lands­rétt­ur staðfesti í dag sýknu­dóm í máli fé­lags­ins Frigus­ar II ehf. gegn ís­lenska rík­inu og Lind­ar­hvoli ehf. Vildi Frigus fá bæt­ur vegna sölu á eign­ar­hlut rík­is­ins í Klakka, en það var Lind­ar­hvoll, fé­lag í eigu rík­is­ins, sem sá um söl­una.

Frigus II ehf. höfðaði mál á hend­ur Lind­ar­hvoli og ís­lenska rík­inu vegna sölu Lind­ar­hvols á hlut rík­is­ins í Klakka. Fór lögmaður Frigus­ar fram á rúm­lega 650 millj­óna bæt­ur í mál­inu ásamt vöxt­um frá því í apríl 2019. 

Voru kröf­ur Frigus­ar II ehf. reist­ar á því að veru­leg­ir ann­mark­ar hefðu verið á sölu­ferl­inu sem leiddu til skaðabóta­skyldu Lind­ar­hvols og ís­lenska rík­is­ins.

Veittu öll­um bjóðend­um sömu upp­lýs­ing­ar

Komst Lands­rétt­ur að þeirri niður­stöðu að ekki yrði annað séð en að Lind­ar­hvoll ehf. hefði veitt öll­um bjóðend­um sömu upp­lýs­ing­ar um þær eign­ir sem voru til sölu og um sölu­ferlið.

Jafn­framt hefði ekk­ert komið fram sem gæfi til­efni til að draga í efa að stjórn Lind­ar­hvols ehf. hefði lagt mat á þau til­boð sem bár­ust og var rök­semd­um um að stjórn­ar­menn hefðu van­rækt rann­sókn­ar­skyldu sína hafnað.

Þá var ekki talið að Frigus II ehf. hefði fært önn­ur hald­bær rök fyr­ir því að ann­mark­ar hefðu verið á sölu­ferl­inu sem gætu leitt til bóta­skyldu Lind­ar­hvols ehf. og ís­lenska rík­is­ins. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu þeirra.

Lind­ar­hvol átti að selja eign­ir sem komu í hlut SÍ 

Lind­ar­hvol var fé­lag sem stofnað var af fjár­málaráðherra til að hafa um­sjón með þeim eign­um sem komu til rík­is­ins í gegn­um Seðlabanka Íslands í tengsl­um við stöðug­leik­fram­lög slita­búa bank­anna. Hafði fé­lagið svo um­sjón með sölu eign­anna. Ein þeirra eigna var hlut­ur rík­is­ins í Klakka, en hann var seld­ur árið 2016. Gert var sam­komu­lag við Stein­ar Þór Guðgeirs­son hjá Íslög­um um fram­kvæmda­stjórn með fé­lag­inu, en hann er jafn­framt verj­andi Lind­ar­hvols í mál­inu.

Frigus  II er  í eigu Ágústs og Lýðs Guðmunds­son­ar og Sig­urðar Val­týs­son­ar og var fé­lagið einn þriggja aðila sem lögðu fram kauptil­boð í eign­ina. Það gerði Frigus II ehf. í gegn­um Kviku banka sem gert hafði samn­ing um að miðla eign­inni til fé­lags­ins ef af kaup­un­um yrði. For­svars­menn Frigus II ehf. töldu sig hafa lagt fram hæsta til­boðið og þannig hefði fé­lagið verið hlunn­farið í sölu­ferl­inu þegar til­boði ann­ars fé­lags, BLM fjár­fest­inga ehf., var tekið. Höfðaði Frigus II ehf. skaðabóta­mál í kjöl­farið.

Um­deild út­tekt rík­is­end­ur­skoðanda

Inn í málið flétt­ast út­tekt rík­is­end­ur­skoðanda á mál­efn­um Lind­ar­hvols og grein­ar­gerð sem lengi var á borði for­seta Alþing­is en ekki var vilji til að birta. Hún var hins veg­ar á end­an­um birt.

Var grein­ar­gerðin gerð af Sig­urði Þórðar­syni, sett­um rík­is­end­ur­skoðanda í mál­efn­um Lind­ar­hvols vegna van­hæf­is þáver­andi rík­is­end­ur­skoðanda. Átti hann að vinna skýrslu að beiðni þings­ins um starf­semi Lind­ar­hvols.

Nokkru síðar var hins veg­ar Skúli Eggert Þórðar­son skipaður rík­is­end­ur­skoðandi og tók hann við mál­inu þar sem hann var ekki van­hæf­ur. Skilaði hann skýrslu árið 2020 þar sem eng­ar at­huga­semd­ir voru gerðar við störf stjórn­ar fé­lags­ins eða rekst­ur þess.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert