„Þetta kemur mér eiginlega bara ánægjulega á óvart þó ég hafi verið að finna fína strauma. En ég hef annars aðallega verið að leggja áherslu á að vinna að góðum málum frekar en velta þessu beinlínis fyrir mér. En þetta er auðvitað bara hvatning til þess að halda því áfram.“
Þetta segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík og formaður borgarráðs, í samtali við mbl.is vegna skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið sem greint er ítarlega frá í blaðinu í dag. Þar kemur meðal annars fram að 33,1% kjósenda í Reykjavík vilji sjá Dag í stóli borgarstjóra eftir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor en næstur kemur Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, með 11,7%.
„Ég held að þetta sé líka ákveðin viðurkenning á stöfum þessa meirihluta sem ég er auðvitað bara stoltur af og verkefnið í vetur hlýtur að vera að auka fylgi Samfylkingarinnar í þessa átt,“ segir Dagur ennfremur en Samfylkingin mælist með 17,6% fylgi í könnuninni. Björt framtíð mælist hins vegar með 29,4% og Sjálfstæðisflokkurinn með 26,6%.
Hyggst gefa áfram kost á sér sem oddviti
„Ég vil gera betur þegar kemur að fylgi Samfylkingarinnar og það er talan sem skiptir mestu máli á endanum. En ég vil leyfa mér að taka þessum niðurstöðum sem vísbendingu um að þessi mál sem ég hef verið að leggja áherslu á, líkt og efling leigumarkaðar og baráttan gegn verðbólgu og fyrir bættum kjörum, sé eitthvað sem fólk telur skipta máli og ég mun bara halda áfram að tala fyrir þeim áherslum og vonandi fá fylgi við þær í kosningunum í vor,“ segir Dagur ennfremur.
Spurður að lokum að því hvort hann ætli að gefa áfram kost á sér sem oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík segir Dagur svo vera. „Já, ég ætla að gefa kost á því og vonandi teflum við fram sterkum lista sem verður blanda af reynslu og endurnýjun. Pólitíkin þarf auðvitað líka að endurnýja sig.“ Aðspurður hvort könnunin verði ekki að teljast gott innlegg í það tekur hann undir það. „Vissulega, það hefði verið miklu verra ef þetta hefði verið á annan veg,“ segir hann og hlær.