Björn Blöndal skipar efsta sætið

S. Björn Blöndal ásamt öðrum sem skipa efstu sæti lista …
S. Björn Blöndal ásamt öðrum sem skipa efstu sæti lista Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Sigurður Björn Blöndal skipar efsta sæti framboðslista Bjartrar framtíðar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Annað sætið skipar Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar og húsgagnasmiður, og þriðja sætið skipar Ilmur Kristjánsdóttir leikkona. 

Þetta kom fram á blaðamannafundi Bjartrar framtíðar í Reykjavík sem haldinn var í Hljómskálanum kl. 15.00 í dag.

Þar var framboðslisti flokksins til borgarstjórnarkosninga í vor kynntur, en listinn var settur saman af nefnd innan flokksins og kynntur á félagsfundi í gær. Var listinn samþykktur einróma á þeim fundi.

16 efstu sæti framboðslista Bjartrar framtíðar: 

  1. Björn Blöndal. 
  2. Elsa Yeoman
  3. Ilmur Kristjánsdóttir
  4. Eva Einarsdóttir
  5. Ragnar Hansson. 
  6. Magnea Guðmundsdóttir
  7. Kristján Freyr Halldórsson
  8. Margrét Kristín Blöndal
  9. Heiðar Ingi Svansson
  10. Diljá Ásmundsdóttir
  11. Barði Jóhannsson
  12. Guðlaug Elísabet Finnsdóttir
  13. Páll Hjaltason
  14. Hjördís Sjafnar
  15. Einar Örn Benediktsson
  16. Karl Sigurðarson

Áður hefur komið fram að Besti flokkurinn renni saman við Bjarta framtíð og muni þeir sem áður hafa myndað Besta flokkinn bjóða fram undir merkjum Bjartrar framtíðar í vor. Jón Gnarr, borgarstjóri og oddviti Besta flokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2010, tilkynnti 30. október síðastliðinn að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér fyrir kosningarnar í vor.

Björt framtíð mældist með nær sama fylgi og Besti flokkurinn fékk í síðustu borgarstjórnarkosningum í þjóðarpúlsi Gallup í lok nóvember, en þar mældist Björt framtíð með 34% fylgi og fengi þá sex borgarfulltrúa, líkt og Besti flokkurinn fékk síðast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert