Sigurður Björn Blöndal skipar efsta sæti framboðslista Bjartrar framtíðar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Annað sætið skipar Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar og húsgagnasmiður, og þriðja sætið skipar Ilmur Kristjánsdóttir leikkona.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Bjartrar framtíðar í Reykjavík sem haldinn var í Hljómskálanum kl. 15.00 í dag.
Þar var framboðslisti flokksins til borgarstjórnarkosninga í vor kynntur, en listinn var settur saman af nefnd innan flokksins og kynntur á félagsfundi í gær. Var listinn samþykktur einróma á þeim fundi.
16 efstu sæti framboðslista Bjartrar framtíðar:
Áður hefur komið fram að Besti flokkurinn renni saman við Bjarta framtíð og muni þeir sem áður hafa myndað Besta flokkinn bjóða fram undir merkjum Bjartrar framtíðar í vor. Jón Gnarr, borgarstjóri og oddviti Besta flokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2010, tilkynnti 30. október síðastliðinn að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér fyrir kosningarnar í vor.
Björt framtíð mældist með nær sama fylgi og Besti flokkurinn fékk í síðustu borgarstjórnarkosningum í þjóðarpúlsi Gallup í lok nóvember, en þar mældist Björt framtíð með 34% fylgi og fengi þá sex borgarfulltrúa, líkt og Besti flokkurinn fékk síðast.