Ekkert annað en pólitísk refskák

Ómar Stefánsson.
Ómar Stefánsson.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi segir að íhuga þurfi hvort halda eigi áfram meirihlutasamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Hann segir að Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað komið í bakið á samstarfsfólki sínu.

Ómar hefur boðað formenn og fulltrúa framsóknarfélaganna í Kópavogi á fund síðdegis í dag þar sem rætt verður um hvort halda eigi áfram meirihlutasamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

Titringur er í bæjarstjórninni vegna þeirrar ákvörðunar Gunnars Birgissonar að styðja tillögu minnihlutans um fjölgun félagslegra leiguíbúða á fundi bæjarstjórnar í gær í óþökk meirihlutans. Aðalsteinn Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri sagði við mbl.is í gær að það væri brjálæði að ákveða á einum fundi að eyða 3 milljörðum króna.

„Gunnar Birgisson hleypur reglulega út undan án þess að gefa okkur nokkra vísbendingu um það fyrirfram. Það er ekki endalaust hægt að koma svona í bakið á samstarfsfólki sínu,“ segir Ómar.

Segir Gunnar mæta til að valda usla

Hann segir Gunnar Birgisson mæta dræmt á fundi bæjarstjórnar þar sem hann sé fluttur til Noregs. Hann mæti þó af og til og að því er virðist í þeim tilgangi einum að valda usla. „Þetta er í þriðja skiptið frá því í maí í fyrra sem hann gerir þetta í svona stórum málum. T.d. í fjárhagsáætluninni kom hann í veg fyrir, ásamt minnihlutanum, að við gætum opnað 35 ný leikskólapláss í Guðmundarlundi sem sárvantar í bæinn. Núna segist hann ætla að kaupa 30-40 íbúðir og byggja tvær blokkir. Það eru líklega um 110 íbúðir sem kosta rúmlega þrjá milljarða.“

Einkennilegt og ólöglegt

Það er ljóst að skortur er á félagslegu húsnæði í Kópavogi. Gunnar Birgisson hefur gagnrýnt að mál sem þessi séu allt of lengi í nefndum. Þurfti ekki að taka af skarið? „Auðvitað viljum við öll leysa þessi mál og samkvæmt fjárhagsáætlun gerðum við ráð fyrir að kaupa 10-15 félagslegar íbúðir á þessu ári,“ segir Ómar sem segir að gert hafi verið ráð fyrir að hver þeirra kostaði að hámarki 30 milljónir. Hann bendir á að þær íbúðir sem samþykkt var að kaupa í gær séu ekki til sölu í bænum.

 „Á markaðnum í dag eru 30 íbúðir undir 30 milljónum til sölu í bænum. Samkvæmt samþykktinni í gær ætla Gunnar Birgisson og félagar að kaupa þær allar á næstunni,“ segir Ómar.

„En fyrir utan það, hvað það er einkennilegt, þá er þetta ólöglegt. Það þarf að samþykkja svona lagað með viðauka við fjárhagsáætlun. Þetta ætti fólk að vita sem hefur áralanga reynslu af setu í bæjarstjórn. En það virðist ekki kunna að starfa samkvæmt reglum sveitarfélagsins.“

Tilgangurinn að styðja annan frambjóðanda

Að mati Ómars er málið allt pólitísk refskák. Hvorki sé verið að hugsa um hag bæjarbúa eða sveitarfélagsins, heldur sé tilgangurinn að sýna Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóra sem verklítinn. „Þetta er ekkert annað en pólitísk refskák. Það er alveg ljóst að með þessu er Gunnar að sýna að hann vill styðja annan frambjóðanda, Margréti Friðriksdóttur, í fyrsta sæti lista Sjálfstæðisflokksins gegn Ármanni. Það finnst mér ósanngjarnt gagnvart Margréti.“

Vill að Gunnar segi af sér formennsku

Nú ætlið þið að funda í dag. Hverju spáir þú um framhaldið? „Ég ætla að heyra í mínu fólki áður en ég get sagt nokkuð um það. Það er alveg ljóst að ef þetta væri venjulegur meirihluti, þá væri Gunnar farinn úr honum. Það sem við í meirihlutanum þurfum að ræða er hvort hann eigi að sitja áfram í nefndum á okkar vegum. Hann nýtur einskis trausts hjá mér lengur. Ég mun a.m.k. fara fram á að hann segi af sér sem formaður framkvæmdaráðs. Ég mun líka fara fram á að Aðalsteinn Jónsson segi af sér sem formaður leikskólanefndar. Það er lykilatriðið að fólk upplýsi samstarfsfólk sitt um ef það ætlar út í svona sólóferil.“

Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson. mbl.is/Jakob Fannar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert