„Það lítur þannig út. Ég get ekki svarað því öðruvísi,“ segir Bragi Mikaelsson, formaður fulltrúaráðs og kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, aðspurður hvort hluti flokksmanna sé að safna liði fyrir annað bæjarstjóraefni en Ármann Kr. Ólafsson, núverandi bæjarstjóra.
Eins og mbl.is hefur sagt frá hefur myndast gjá milli Gunnars Birgissonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, og Ármanns bæjarstjóra í húsnæðismálum. Stóð Gunnar með fulltrúum minnihlutans á bæjarstjórnarfundi í gær.
- Hvernig er andrúmsloftið meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi?
„Andsrúmsloftið hefur til þessa verið þokkalega gott að undanskildum ákveðnum og takmörkuðum hóp sem er í kringum Gunnar Birgisson.
Það hefur verið almennt nokkuð gott andrúmsloft og mikið starf hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi að undanskilum nokkrum einstaklingum í kringum Gunnar Birgisson. Hins vegar hef ég ekki átt orðaskipti við Gunnar Birgisson í nokkra mánuði því hann hefur ekki látið sjá sig. Ég á ekki í neinum illindum eða óróleika við hann sem mér er kunnugt um.“
Fyrst og fremst þrír frambjóðendur
- Hverjir eru í þeim hópi sem þú nefnir að styðji Gunnar?
„Af frambjóðendum er það náttúrulega fyrst og fremst Jóhann Ísberg og Þóra Margrét Þórarinsdóttir sem hafa stutt Gunnar mjög ítarlega. Það eru nokkrir fleiri einstaklingar, já og Gunnlaugur Snær Ólafsson. Ég held að ég megi segja að hann hafi stutt Gunnar Birgisson líka,“ segir Bragi en lista frambjóðenda má sjá hér.
- Hversu öflugur er hópurinn í kringum Gunnar? Eru uppi hugmyndir um að fylkja sér að baki öðru bæjarstjóraefni en Ármanni í kosningunum í vor?
„Það lítur þannig út. Ég get ekki svarað því öðruvísi. Ég get ekki fullyrt neitt um það en ég veit að það eru dreifðar skoðanir í þeim hópi með það alveg eins og annað. Ég hefði talið að sjálfstæðismenn ættu að fylkja sér að baki núverandi oddvita og bæjarstjóra sem hefur staðið sig að mínu mati vel í starfi.“
Illindi aldrei til góða
- Hvaða afleiðingar hefur þetta verið flokkinn svo skömmu fyrir kosningar?
„Það er aldrei gott að það sé óróleiki í flokknum. Ég held að flokkurinn hafi haft mjög góða stöðu hér í bænum og eigi að geta haft. Ég vona auðvitað að svona væringar leiði ekki til þess að flokkurinn tapi stöðu sinni.“
- Hvað ætlið þið að gera innan fulltrúaráðsins?
„Við erum með stjórnarfund í fulltrúaráðinu í dag og ég get ekki svarað hvað gert verður fyrr en að honum loknum.“
Stefnan ekki verið rædd í Kópavogi
- Telurðu að Gunnar hafi fylkt sér að baki minnihlutasjónarmiði meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi?
„Ég get náttúrulega ekki fullyrt neitt um það. Þessi húsnæðisstefna eins og hann kynnir hana í bæjarstjórn hefur ekki verið rædd á fundum flokksins. Meginstefna Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina hefur verið eignastefnan [innskot, stundum nefnd séreignastefna í húsnæðismálum]. Mín skoðun er alveg skýr. Það sem þarf að gera í þjóðfélaginu er að hjálpa þeim sem minna mega sín og byggja leiguíbúðir. En nýjar leiguíbúðir eru afar dýrar fyrir skjólstæðinga félagsþjónustunnar, svo dæmi sé tekið.“
- Þannig að þú vilt fara aðrar leiðir í húsnæðismálum?
„Já. Ég tel eðlilegra að það sé mótuð í heild sinni á landsvísu ný íbúðastefna og að hún nái bæði til leigjenda og kaupenda. Að bætur og húsnæðisbætur verði afgreiddar í gegnum skattkerfið en ekki sveitarfélögin. Það er mín skoðun persónulega.“