Rannveig Ásgeirsdóttir, formaður bæjarráðs í Kópavogi, fer hörðum orðum um framgöngu minnihlutans og Gunnars Birgissonar við samþykkt tillögu í húsnæðismálum á fundi bæjarstjórnar Kópavogs í gærkvöldi. Framgangan hafi verið „lýðskrum“ sett á svið í pólitískum tilgangi.
Þegar hefur verið fjallað um málið á vef mbl.is.
Rannveig er fulltrúi Y-listans, Lista Kópavogsbúa, í bæjarstjórn. Y-listinn var hluti af meirihluta vinstri manna sem sprakk í ársbyrjun 2012 en í kjölfarið tók Ármann Kr. Ólafsson við bæjarstjórastöðunni.
Fram kom í samtali mbl.is við Gunnar Birgisson í morgun að hin umdeilda tillaga í húsnæðismálum hafi í meginatriðum verið tillaga sem hann flutti sjálfur í nóvember sl.
Hluti af kosningaloforðum Samfylkingar
Rannveig segir málið eiga sér lengri aðdraganda.
„Það er ljóst að hér er um að ræða hluta af tillögum Samfylkingarinnar frá 2010 sem bar heitið Kópavogsbrúin og átti að fara í af þeirra hálfu. Við sátum með þeim í þeim meirihluta og vorum ekki alls kostar sátt við nálgunina í þeim efnum og vildum ekki taka tillöguna óbreytta upp og samþykkja. Þess vegna var þetta ekki farið í gang,“ segir Rannveig en Kópavogsbrúin átti að fela í sér nýja lausn í húsnæðis- og atvinnumálum.
Sjá má kynningu forystumanna Samfylkingarinnar á tillögunni í þessu kynningarmyndskeiði á YouTube.
Greiningarvinna í fullum gangi
Rannveig segir þverpólitíska sátt hafa myndast í málinu.
„Þetta var hluti af kosningaloforðum Samfylkingarinnar 2010 um leigumarkaðsúrræði. Að hluta til er þetta svo tillaga Gunnars Birgissonar frá því í nóvember í fyrra. Þegar við sáum hversu áríðandi það er að ganga fram í þessum efnum ákváðum við í fullri sátt - það var þverpólitísk sátt ef frá er talinn Gunnar Birgisson, af því að honum fannst nefndin hafa verið leiðinleg - að stofna þverpólitíska nefnd í sátt og samlyndi, að allir myndu setjast niður og afla gagna. Að nefndarmenn og starfsmaður nefndarinnar myndu hittast einu sinni fyrir áramótin.
Greiningarvinna um stöðuna á húsnæðismarkaði er nú í fullum gangi. Það var aðkeypt vinna sem allir voru sáttir með. Hún fjallaði meðal annars um húsnæðismarkaðinn, kaupmarkað, leigumarkað og félagsleg úrræði.
Því hlýtur það að skjóta skökku við að hluti hópsins skuli stíga þetta skref, einstaklingar sem eru í þessari sömu nefnd og vita nákvæmlega hvað við erum að gera þar. Einstaklingar sem ætluðu að vinna hratt og vel og skila heildstæðri tillögu og jafnframt líka að fara í ríkið, því þar liggur hundurinn grafinn líka,“ segir Rannveig og nefnir „vaxtamál“.
„Maður bar í brjósti von að nú væri fólk í Kópavogi tilbúið að gera einhverja hluti af alvöru saman. Svo kemur þetta upp á í gær, sama tillagan lögð fram með popúlísku yfirbragði. Hún er keyrð í gegn.
Frestunartillögu Ármanns Kr. Ólafssonar var hafnað sem er frekar sjaldgæft að sé gert, ég tala nú ekki um þegar fara á í stórkostlegar fjárfestingar fyrir bæjarfélagið. Þetta er með ólíkindum.“
Voru búin að sammælast um vinnuna
- Telurðu að þetta snúist ekki um aðgerðir í húsnæðismálum heldur að þetta sé sviðsett í pólitískum tilgangi?
„Já, það held ég, vegna þess að við erum búin að sammælast um vinnu við lausnir í húsnæðismálum. Við erum öll búin að setjast niður við borð, horfa í augun hvert á öðru og ákveða hvað við viljum gera í þessum efnum. Við vorum í vinnu í þeirri vegferð sem er nú í uppnámi.“
Næstum tvö ár upp á dag
Til upprifunar sprakk meirihlutinn í Kópavogi 17. janúar 2012 þegar Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi Næstbesta flokksins, sleit meirihlutasamstarfinu og sagði ástæðuna þá að hann styddi ekki hvernig meirihlutinn stóð að uppsögn Guðrúnar Pálsdóttur bæjarstjóra.
Meirihluti Samfylkingar, VG, Lista Kópavogsbúa og Næstbesta flokksins var þar með sprunginn.
Ármann var kosinn bæjarstjóri Kópavogs 14. febrúar 2012 en fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Y-lista Kópavogsbúa standa að meirihlutanum.
Fimm konur sögðu sig þá formlega úr Y-lista Kópavogsbúa. Ásdís Ólafsdóttir, einn stofnenda framboðsins, sagði konurnar ósáttar við þá ákvörðun Rannveigar Ásgeirsdóttur, bæjarfulltrúa Y-listans, að mynda nýjan bæjarstjórnarmeirihluta í samvinnu með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í Kópavogi.