„Það verður að segjast eins og er að Ármann hefur átt í erfiðleikum með að fóta sig sem leiðtogi í Sjálfstæðisflokknum. Við finnum mjög sterkt fyrir því að það vantar einhvern leiðtoga í þennan meirihluta,“ segir Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Kópavogi, um stöðu bæjarstjórans.
Titringur er í Kópavogi vegna þeirrar ákvörðunar Gunnars Birgissonar að ganga gegn Ármanni í húsnæðismálum, nánar tiltekið vegna þeirrar ákvörðunar Gunnars að styðja tillögu minnihlutans um fjölgun félagslegra leiguíbúða.
- Hvað er að gerast í bæjarstjórn Kópavogs?
„Það liggur fyrir að það var samþykkt tillaga í bæjarstjórn, þvert á flokka. Eigum við ekki að orða það þannig. Þar var samþykkt tillaga sem við lögðum fram í bæjarstjórn í gær um að byggja leiguíbúðir og fjárfesta myndarlega á árinu í félagslegu leiguhúsnæði. Það er fyrsta skrefið. Svo geri ég ráð fyrir að það verði unnið samkvæmt þessari samþykkt bæjarstjórnar.“
Meirihlutinn gengur ekki í takt
- Nú hefur einn fulltrúi meirihlutans, Gunnar Birgisson, gengið í lið með minnihlutanum í málinu. Hvernig meturðu stöðu meirihlutans?
„Það er auðvitað öllum ljóst að meirihlutinn gengur ekki í takt í Kópavogi. Það er alveg ljóst. Ég hins vegar auðvitað fagna því að bæði Aðalsteinn Jónsson og Gunnar Birgisson skyldu hafa veitt þessari tillögu brautargengi, Aðalsteinn með því sitja hjá og Gunnar með því að greiða henni atkvæði sitt.“
- Er nýr meirihluti í uppsiglinu?
„Nei. Það tel ég ekki. Ég held að þessi meirihluti muni halda fram að kosningum. Það hefur nú eitt og annað á daga þeirra drifið frá því að þau tóku við og þau hafa alltaf hangið saman. Ég held að þau muni nú gera það.“
Erfitt að spá í stöðuna
- Hvað gerist eftir kosningar? Hvernig meturðu stöðu Sjálfstæðisflokksins til að halda áfram í meirihlutasamstarfi, eftir það sem á undan er gengið?
„Kjósendur í Kópavogi eiga eftir að kveða upp sinn dóm með atkvæðum sínum. Við vitum ekki hvað kemur upp kjörkössunum. Það sem gerist eftir kosningar ræðst af því.
Það verður að segjast eins og er að Ármann hefur átt í erfiðleikum með að fóta sig sem leiðtogi í Sjálfstæðisflokknum. Við finnum mjög sterkt fyrir því að það vantar einhvern leiðtoga í þennan meirihluta. En það er eins og að reyna að spá í bolla að ætla að reyna að kortleggja landslagið eftir kosningar.“
- Hvert heldurðu að verði leiðtogaefni sjálfstæðismanna?
„Margrét [Friðriksdóttir, skólameistari MK] hefur lýst því yfir að hún sækist eftir 1. sæti. Það er því alveg ljóst að það er oddvitaslagur framundan hjá Sjálfstæðisflokknum.“
Sex voru með tillögunni en fjórir á móti
Atkvæði í málinu umdeilda í bæjarstjórn Kópavogs féllu að sögn Guðríðar þannig að Aðalsteinn Jónsson, Sjálfstæðisflokki, sat hjá. Tillöguna studdu Gunnar Birgisson, Sjálfstæðisflokki, Guðríður Arnardóttir, Pétur Ólafsson og Hafsteinn Karlsson, Samfylkingu, Hjálmar Hjálmarsson, Næstbesta flokknum og Ólafur Þór Gunnarsson, VG.
Á móti tillögunni voru bæjarstjórinn Ármann, flokkssystir hans Margrét Björnsdóttir, Ómar Stefánsson, Framsóknarflokki, og Rannveig Ásgeirsdóttir, Y-lista Kópavogsbúa.
Atkvæði féllu þannig 6-1-4 og hafði hjáseta Aðalsteins því ekki úrslitaáhrif.