Vilji til áframhaldandi samstarfs í Kópavogi

Kópavogur
Kópavogur mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég varð ekki var við annað en að  það sé vilji til að halda þessu samstarfi,“ segir Bragi Mikaelsson, formaður fulltrúaráðs og kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi um framtíð meirihluta flokksins með Framsókn og Y-lista.

Fulltrúaráðið fundaði nú undir kvöld þar sem m.a. var rædd tillaga um kaup á félagslegu húsnæði sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í gær, af fulltrúum minnihlutans, Samfylkingar, VG og Næstbestaflokksins með fulltingi Gunnars Birgissonar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Aðrir fulltrúar meirihlutasamstarfsins hafa gagnrýnt þessa framgöngu Gunnars og m.a. talað um óvönduð vinnubrögð.

Þá hefur verið rætt um að þessi tillaga muni kosta Kópavogsbæ a.m.k. þrjá milljarða króna, en bærinn uppfyllir ekki viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaganna og þarf því að leita heimilda hennar, eigi tillagan að geta gengið eftir.

„Þegar menn eru í meirihlutasamstarfi þá eru þeir það og það gilda ákveðnar reglur um það að vinna saman,“ segir Bragi og segir að fulltrúaráðinu hafi engar skýringar borist frá Gunnari vegna málsins. „Nei, við höfum ekkert heyrt frá honum.“

Bragi hefur langa reynslu í stjórnmálum og hefur starfað að bæjarmálum í Kópavogi í 40 ár. Spurður um hvort hann minnist viðlíka atburða, að fulltrúi meirihlutans snúist á sveif með minnihlutanum í jafn kostnaðarsömu máli, segir hann svo ekki vera. „Nei, ég minnist þess ekki að svo hafi verið. Ég lagði sjálfur áherslu á það í pólitíkinni að menn væru þar á grundvelli samstarfs.“

Hvert verður framhaldið? „Við tókum þessi mál fyrir og ákváðum að hitta bæjarfulltrúa fljótlega og ræða stöðu mála,“ segir Bragi. Voru fundarmenn á því að um væri að ræða liðssafnað gegn Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra, eins og leitt hefur verið líkum að? „Ég er ekki tilbúinn til að svara því.“

Vonar að væringar séu úr sögunni

Einn frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri í Kópavogi, Gunnlaugur Snær Ólafsson, fór fram á það í dag að Bragi segði af sér sem formaður kjörnefndar eftir að Bragi sagði að Gunnlaugur væri í hópi stuðningsmanna Gunnars. Bragi segir þessa kröfu Gunnlaugs hafa verið rædda á fulltrúaráðsfundinum. „Þar var því hafnað að ég segði af mér.“

Hvaða áhrif hefur þetta á stöðu Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi? „Flokkurinn hefur haft sterja stöðu í gegnum tíðina með öfluga liðsmenn til að vinna að góðum málum. Ég vona að væringar séu nú úr sögunni.“

Bragi Mikaelsson.
Bragi Mikaelsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert