„Næst verður svarað með kæru“

Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins.
Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins. mbl.is/hag

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, segir nóg komið af lygi Gunnars I. Birgissonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og að næst þegar Gunnar ljúgi um hann í fjölmiðlum muni hann svara með kæru.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Ómars í Kópavogspóstinum í dag. Þar svarar Ómar grein sem Gunnar Ingi birti í Morgunblaðinu í nóvember.

Grein Gunnars:

„Fyrir tæpum tveimur árum sprakk þáverandi meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Næstbesta flokksins og Y-lista hér í Kópavogi. Aðalástæða þess var krafa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að segja bæjarstjóranum, Guðrúnu Pálsdóttur, upp störfum. Óþarfi er að rifja upp atriði þessa máls en skemmst er frá því að segja að við sjálfstæðismenn gagnrýndum þennan gjörning mjög enda var Guðrún þarna fórnarlamb í pólitískri atburðarás sem hún átti enga sök á.

Við tók nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Y-lista. Þessi nýi meirihluti gekk frá starfslokasamningi við Guðrúnu þar sem lögð var áhersla á að virða samning fyrri meirihluta við hana þ.ám. að hún fengi sitt gamla starf sviðstjóra menningarmála aftur eða sambærilega sviðstjórastöðu þegar hún kæmi aftur til starfa. Allt gekk vel þar til Guðrún átti að koma til starfa og gera þurfti breytingar á skipuriti bæjarins vegna samningsins. Þá bar svo við að bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins neitaði að standa við samninginn og málið komið í uppnám. Hvað skyldi nú hafa valdið þessari afstöðu Ómars? Á tíma Guðrúnar sem bæjarstjóra stækkaði Ómar íbúðarhúsnæði sitt og þurfti að greiða bænum gatnagerðargjöld. Hann fór fram á að greiða þau með jöfnum afborgunum. Þessu hafnaði Guðrún eðlilega, gat ekki annað, enda hefði hún með slíkum gjörningi mismunað öðrum byggjendum sem flestir gætu sjálfsagt notað tilslakanir á greiðslum. Þetta fór illa í bæjarfulltrúann og nú var komið að skuldadögum.

Guðrún var síðan á grundvelli tillagna um nýtt skipurit sett í sviðstjórastarf án sviðs þ.e. í sértæk verkefni þar sem hún fékk litla sem enga handleiðslu frá bæjarstjóra. Greinilega sett á ís. Örfáum mánuðum seinna lagði Ármann bæjarstjóri einhliða til að starf Guðrúnar yrði lagt niður og ekki er að sjá að það sé lagt til í tillögum sérfræðinga. Ekki átta ég mig á hvað bæjarstjóri hefur á móti Guðrúnu sem hefur að baki 25 ára farsælan starfsferil hjá bænum, kannski áhrif meðreiðarsveina. Formaður bæjarráðs, Rannveig Ásgeirsdóttir, Y-lista, studdi þessa aftöku Guðrúnar. Fyrir síðustu kosningar prédikaði hún heiðarleika, mannúð og gegnsæi í stjórnmálum sem hún hefur greinilega gleymt nú.

Þegar aftakan hafði verið ákveðin var Guðrúnu birt uppsögnin af stefnuvotti í leigubíl. Sviðstjóri stjórnsýslusviðs sem hefur numið guðfræði og stjórnsýslufræði kvittaði undir aftökubréfið í fjarveru bæjarstjóra.

Guðrún Pálsdóttir er leiksoppur örlaganna í þessari atburðarás. Efndir samningsins sem hún gerði við núverandi meirihluta urðu síst betri en samningsefndir síðasta meirihluta og mannorð hennar forsmáð.

Þessi framkoma er okkur Kópavogsbúum til háborinnar skammar. Er það svona sem við viljum að stjórnendur Kópavogsbæjar komi fram við starfsmenn sína?“

Í greininni sem Ómar ritar í Kópavogspóstinum í dag kemur fram að það eina sem sé rétt í grein Gunnars sé að hann hafi kannað hvort hann gæti greitt viðbótargjöld vegna byggingarframkvæmda við heimili sitt með afborgunum. Hann hafi fengið það svar að það væri ekki hægt. Hann hafi því staðgreitt 1,8 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert