„Þetta er alveg rétt hjá Guðjóni. En hann er hins vegar bara að meta stöðuna út frá því sem Ármann hefur verið að gala í fjölmiðlum og Ármann hefur einfaldlega verið ítrekað að fara með rangt mál. Sem hlýtur að vera vísvitandi enda margbúið að benda honum á að þessi upphæð sem hann hefur nefnt, þrír milljarðar, er bæði ekki svona há og fellur heldur ekki til á einu ári.“
Þetta segir Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, varðandi tillögu minnihlutans í bæjarstjórn Kópavogs um fjölgun félagslegra íbúða í bænum sem samþykkt var á dögunum með stuðningi Gunnars Birgissonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Haft er eftir Guðjóni Bragasyni, sviðsstjóra lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, í Morgunblaðinu í dag að leggja þurfi fram viðauka við fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar eigi skuldbinding um fjölgun leiguíbúða í bænum að standast lög.
Guðríður segir að ef kostnaðurinn við verkefnið væri eins hár og Ármann Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, héldi fram væri bæjarfélagið vissulega komið út fyrir þann ramma sem það hefði svigrúm til. Svo væri hins vegar ekki enda væri rétt tala innan við tvo milljarða sem dreifðist yfir fleiri en eitt ár. „Þegar við verðum hins vegar komin lengra með málið og förum að nálgast þann tímapunkt að setja peninga úr bæjarsjóði í verkefnið þarf að leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun og það verður gert.“
Vonar að bæjarstjórinn sjái að sér
Guðríður segir Ármann gefa sér það með röngu að ætlunin sé að byggja tvær þrjátíu íbúða blokkir sem sé alls ekki ætlunin. „Það sem skiptir hins vegar ekki síst máli er að þessi peningar munu falla til að lengri tíma en einu ári. Ég get bara bent á það að árið 2009 keypti Kópavogsbær upp hlut Knattspyrnuakademíunnar í Kórnum fyrir 1,9 milljarða og þá fór nú Ármann ekki á límingunum. Það voru líka settar 400 milljónir í reiðhöll í fyrra.“
Kópavogsbær væri þannig alltaf að framkvæma á hverju ári fyrir í kringum 1,5 milljarð króna. „Ef bæjarstjórinn hefði nú nálgast þessa umræðu af yfirvegun þá væri hún ekki komin í þennan upphrópunarstíl sem þetta er í núna. En ég vona bara að bæjarstjórinn fari að sjá að sér og loki á sér munninum og fari bara að vinna að þessu góða verkefni sem að hundruðir fjölskyldna í Kópavogi bíða spenntar eftir að verði að veruleika.“