„Föstudagurinn langi kom og fór án þess að ég sendi tilkynninguna og á laugardeginum birtust keppinautarnir um oddvitasætið í Reykjavík með morgunkaffinu: Guðni Ágústsson og íþróttaálfurinn.
Fyrsta hugsun mín var, hvað hafa þessir góðu menn umfram mig? Þessi hugsun sat enn í kollinum þegar fréttamaður hringdi í mig – hann fékk stöðluðu svörin.
Þegar hann var búinn að spyrja síðustu spurningarinnar og upptakan enn í gangi, kom svarið við spurningunni áleitnu: Hvað hef ég umfram íþróttaálfinn og Guðna?
Svarið var: Ég tel mig vera betri kost.
Valkosturinn sem ég stillti upp var raunveruleg þekking á borgarmálum.
Páskahelgin leið. Fólkið á bakvið tjöldin var horfið, ég náði samt að grípa í löppina á einum sem kannaðist ekki við að nokkur hefði haft samband við Guðna eða íþróttaálfinn. Svo var óskað eftir Framsóknarfríi um páskana og samtalinu því slitið.
Af fréttum mátti skilja að menn hafi sest saman í reykfyllt bakherbergi til að vinna að hliðarframboði með Guðna, sem sagðist vera kominn undir feld ásamt útvöldum, þaðan bárust mér engar fréttir.
Það bárust síðan fréttir af því að landstjórnin og æðstu embætti flokksins, ásamt þingmönnum ynnu að framboði fyrir sveitastjórnarkosningar. Fréttatilkynningar með sífellt nýjum útgáfum af sömu atburðarás bárust fjölmiðlum.
Það vakti athygli mína að ráðherra jafnréttismála Eygló Harðardóttir og þingkonur og kvennahreyfingar þær sem eru þátttakendur í átakinu „konur til forystu“ gerðu enga athugasemd við aðferðafræði flokksins gagnvart kynsystur sinni.
Þögnin um konuna sem var í 2. sæti framboðslista sem hafði verið samþykktur af framsóknarfélögum í Reykjavík var orðin verulega hávær.
Ég kveð hérmeð Framsóknarflokkinn með virktum og tek ekki sæti á lista hans, enda hefur þess ekki verið óskað. Ég minni á að ég hef aldrei sóst eftir oddvitasætinu, þrátt fyrir að ég hafi fundið fyrir áþreifanlegum stuðningi framsóknarmanna- og kvenna sem og óflokksbundinna borgarbúa. Mér þykir vænt um þá ábyrgð sem mér var sýnd þegar ég var valin á lista þótt kraftar mínir hafi ekki fengið farveg innan Framsóknarflokksins. Ég óska nýjum oddvita og öðru flokksfólki velgengni,“ segir í grein sem Guðrún Bryndís Karlsdóttir ritar í Kvennablaðið.