Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki vera ánægður með það fylgi sem flokkurinn hefur mælst með að undanförnu. Hann bendir hins vegar á að fylgið sé nú á mjög svipuðum slóðum og það var í þingkosningunum fyrir rúmu ári. Það hafi ekki hríðfallið, eins og sumir vilja meina.
Bjarni var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Hann sagði að fylgi flokksins í þingkosningunum hefði vissulega valdið vonbrigðum en mikilvægt væri þó að átta sig á stóru myndinni. Staða flokksins væri til dæmis afar sterk í mörgum sveitarfélögum landsins, nýir flokkar væru að fá þónokkurn stuðning og þá væri enn mikil hreyfing á kjósendum.
Þrátt fyrir að fylgi Sjálfstæðisflokksins væri ekki eins og best væri á kosið, þá væri „enginn annar flokkur tekinn við sem stærsti flokkurinn,“ sagði Bjarni.
Margir stjórnmálaskýrendur hafa rakið fylgistap Sjálfstæðisflokksins til hugmynda um að stofna nýjan Evrópusinnaðan flokk á hægrivæng stjórnmálanna. Bjarni benti hins vegar á að frá því að hugmyndir komu fyrst upp um að stofna nýjan hægriflokk, þá hefði fylgi Sjálfstæðisflokksins lítið breyst. Það væri nú svipað og það var í nóvember og desember, „þegar umræðan var í ládeyðinni,“ eins og hann orðaði það.
Hann sagði að nýr flokkur myndi vissulega hafa áhrif á Sjálfstæðisflokkinn en ekki einungis á hann, heldur aðra flokka líka.
„Ég er ekki sáttur við hvar við mælumst í dag og sjálfstæðismenn almennt eru það alls ekki,“ sagði Bjarni. „Við erum hins vegar með góð mál á borðinu og staðan er mjög góð.“
Ríkisstjórnin ætti eftir að skila góðum árangri í til dæmis í efnahagsmálum og það væri leiðin til að endurheimta traust og fylgi kjósenda.
Bjarni sagðist finna fyrir góðum og miklum stuðningi úr öllum áttum, bæði frá þingflokknum sem og almennum sjálfstæðismönnum. „Mitt verkefni er að vinna að stefnumálum flokksins og tryggja þeim framgang. Ég hef trú á þeim og þeim árangri sem þau geta stuðlað að. Það er engin önnur leið fyrir mig til að standa mig í því hlutverki sem mér er falið.“
Frétt mbl.is: Góð rök fyrir því að fjölga seðlabankastjórum
Frétt mbl.is: Evrópumálið of fyrirferðarmikið