Umboðsmenn framboðslista Næstbesta flokksins í Kópavogi segja að umboðsmaður framboðs Sjálfstæðisflokksins í bænum hafi óskað eftir því að fá afhenta meðmælalista annarra flokka sem bjóða fram í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum. Næstbesti flokkurinn segir beiðnina óeðlilega og lýsa vantrausti á störf kjörstjórnar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem þau Ásdís Helga Jóhannesdóttir og Hjálmar Hjálmarsson, umboðsmenn framboðslista Næstbesta flokksins, hafa sent, en þar segir m.a. að vinnubrögðin minni á aðferðir í anda austurþýsku lögreglunnar Stasi.
Þau segja að á fundi kjörstjórnar Kópavogs í dag hafi Bragi Michaelsson, umboðsmaður framboðs Sjálfstæðisflokksins, óskað eftir því að fá afhenta meðmælendalista annarra framboða í Kópavogi. Ásdís og Hjálmar segja að engar skýringar eða röksemdir hafi fylgt þessari beiðni.
„Umboðsmenn Næstbesta flokksins hafna því að kjörstjórn Kópavogs afhendi Sjálfstæðisflokknum þau til skoðunar. Undirrituð líta á meðmælendalista okkar sem eign framboðs Næstbesta flokksins til tímabundinnar notkunar fyrir kjörstjórn á meðan yfirferð gagna stendur yfir. Kjörstjórn Kópavogs hefur nú yfirfarið meðmælendalista Næstbesta flokksins og úrskurðað framboðið hæft,“ segir í yfirlýsingunni.
Ásdís og Hjálmar óska eftir því að fá afhent frumrit af meðmælendalistum framboðsins þegar kjörstjórn hafi lokið notkun þeirra og að rafrænum gögnum þar að lútandi verði eytt sömuleiðis. Þau segjast treysta kjörstjórn til að halda trúnað varðandi upplýsingar sem í þessum gögnum kunni að finnast.
„Beiðni Braga Michaelssonar, umboðsmanns Sjálfstæðisflokksins, er í hæsta máta óeðlileg að okkar mati. Í fyrsta lagi lýsir hún miklu vantrausti á störf kjörstjórnar Kópavogs og gefur í skyn að stjórnarmenn kjörstjórnar séu ekki starfi sínu vaxnir. Í öðru lagi leyfum við okkur að efast um að tilgangur beiðni Braga Michaelssonar sé ærlegur heldur séu hér á ferðinni gamaldags aðferðir í anda austurþýsku leyniþjónustunnar Stasi til þess að stunda persónunjósnir um kjósendur í Kópavogi. Í þriðja lagi er nánast einsdæmi í seinni tíð að stjórnmálaflokkar óski eftir að fá að sjá meðmælendalista frá öðrum framboðum. Það er hluti af hinni gömlu og úreltu pólitík sem við héldum að væri liðin undir lok. En hún virðist lifa góðu lífi innan fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi þessa dagana,“ segir í yfirlýsingunni.