„Við erum alvarlega að íhuga að fara lengra með málið og leggja fram stefnu,“ segir Baldvin Björgvinsson, umboðsmaður framboðslista Dögunar í Kópavogi, í samtali við mbl.is vegna óskar fulltrúa framboðs sjálfstæðismanna um að fá afhenta lista yfir meðmælendur annarra framboða vegna sveitarstjórnarkosninganna síðar í mánuðinum.
Fulltrúar Dögunar, Pírata og Næstbesta flokksins hafa harðlega gagnrýnt ósk Braga Mikaelssonar, umboðsmanns framboðslista sjálfstæðismanna, á fundi kjörstjórnar í gær um að fá listana afhenta. Hefur óskin verið sögð í hæsta máta óeðlileg, hluti af úreltri pólitík og líkt við vinnubrögð austurþýsku öryggislögreglunnar Stasi.
Fram kemur á upplýsingasíðu innanríkisráðuneytisins vegna kosninganna að skylt sé að afhenda meðmælendalistana með vísan í upplýsingalög. Þar segir: „Ekki verður talið að meðmælendur eigi rétt á nafnleynd. Kjörstjórn er því skylt samkvæmt upplýsingalögum að afhenda listana, verði farið fram á það.“
„Við teljum fulla ástæða til þess að verja friðhelgi borgaranna fyrir svona löguðu,“ segir Björgvin og talar þar fyrir hönd síns framboðs. Dögun sé með í skoðun að vísa málinu til dómstóla sem fyrr segir. Um sé að ræða persónuupplýsingar „sem ekki eigi að fara eitthvað út í bæ.“ Beiðni sjálfstæðismanna sé mjög vafasöm.
Kjörstjórn í Kópavogi fundar um málið næstkomandi miðvikudag og má fastlega búast við að stefna frá Dögun verði komin fram fyrir þann tíma að sögn Björgvins. „Þá verða gögnin ekki afhent fyrr en úr því hefur verið skorið.“ Dögun hefur sent erindi til innanríkisráðuneytisins þar sem farið er fram á upplýsingar um lagagrunn þess að ráðuneytið telji kjörstjórnum skylt að afhenda meðmælendalistana.
Frétt mbl.is: Mótmæltu afhendingu meðmælalista
Frétt mbl.is: Hluti af gamalli og úreltri pólitík