Kærir kosningarnar í Reykjavík

Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík hefur verið kærð til embættis sýslumannsins í Reykjavík. Þetta staðfestir Guðmundur Sophusson sýslumaður í samtali við mbl.is. Kæran barst embættinu í hendur í dag og er í skoðun hjá því.

Fram kemur á vef Ríkisútvarpsins að lögmaður, sem ekki er nafngreindur í fréttinni, hafi lagt fram kæruna á þeim grundvelli að yfirkjörstjórn í Reykjavík hafi verið skipuð en ekki kosin eins og lög geri ráð fyrir. Farið sé fram á að yfirkjörstjórn verði leyst frá störfum, greiddum utankjörfundaratkvæðum eytt og kosning hafin að nýju.

Vísað sé til þess að yfirkjörstjórn skuli kosin á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar til fjögurra ára í senn samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Ekkert komi hins vegar fram í fundargerð fyrsta fundar borgarstjórnar Reykjavíkur eftir síðustu kosningar að það hafi verið gert. Hins vegar komi fram í fundargerð frá í október á síðasta ári að yfirkjörstjórn hafi þá verið skipuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert